Uppboðum hætt og gildistími veiðileyfa lengdur

138
Deila:

Breytt  lög um stjórnun fiskveiða í Færeyjum eru þegar farin að hafa áhrif. Nú er veiðileyfum, fiskidögum og kvótum, úthlutað með 12 ára uppsagnarfresti hins opinbera og uppboðum á aflaheimildum verður hætt. Þeir sem keypt hafa heimildir á uppboðum geta nú fengið þær áfram með sama hætti og almennar heimildir og það sama á við um svokallaða þróunarkvóta.  Vegna þessa eru útgerðarmenn í Færeyjum farnir að hugsa um endurnýjun, sérstaklega í flota skipa sem stunda veiðar á uppsjávarfiski. Meðalaldur þessara skip er 18 ár, en það elsta er rúmlega fertugt. Sex þeirra eru nú á sölulista.

Heimildir til lengri tíma

Helstu breytingarnar frá fyrri lögum eru að veiðiheimildir gilda nú til lengri tíma en áður, að lágmarki 12 ár. Heimildir til veiða eru bundnar hverju skipi fyrir sig og er framsal þeirra frjálst. Færeyingar stjórna veiðum sínum með útgáfu veiðidaga. Það er hvert og eitt skip fær ákveðinn fjölda daga til veiða á hverju ári og byggist fjöldinn á fyrri reynslu skipanna og tilmælum frá Hafrannsóknastofnun Færeyja og Alþjóða hafrannsóknaráðinu.

Staða helstu fiskistofna við Færeyjar er nú sú að stofnar þorsks og ýsu eru á góðri uppleið, en ufsastofninum hefur hnignað. Veiðarnar bera það með sér og á síðasta ári veiddist meira af þorski og ýsu en fjölmörg undanfarin ár.

Uppboðum á veiðiheimildum verður nú hætt og þær útgerðir sem keypt hafa leyfi á uppboðum munu geta breytt þeim í samræmi við nýju lögin, þar er að uppsagnarfrestur þeirra verður 12 ár. Undanfarin ár hafa stjórnvöld í Færeyjum tekið til hliðar ákveðið hlutfall af leyfilegum heildarafla á makríl, kolmunna og síld og þorski í Barentshafi. Núverandi landsstjórn telur það ekki heppilegt fyrirkomulag og því verður uppboðunum hætt.

Markmiðið með þessum grundvallarbreytingum er skapa sjávarútveginum betri starfsskilyrði hvað varðar rekstur, atvinnusköpun, sjálfbærni og almenn markaðslögmál.

Frjálst framsal

Framsal fiskidaga og annarra veiðiréttinda verður nú frjálst. Frjálst framsal er talið tryggja að heimildirnar verði í höndum þeirra, sem geta skilað mestum virðisauka af veiðunum. Til að ávinningurinn skili sér bæði til sjávarútvegsins og þjóðarinnar verður lagt fram frumvarp til laga um veiðigjald svo og skattlagningu á sölu veiðiréttinda.

Engin nýsmíði hefur komið inn í flota uppsjávarskipa Færeyinga í 10 ár. Síðasta nýsmíðin er uppsjávarveiðiskipið Tróndur í Götu sem kom nýr til eyjanna 2010 og Nordborg 2009. Nýjasta skipið er hins vegar Gitte Henning, sem keypt hefur verið frá Danmörku. Hún er nokkuð ný af nálinni, aðeins tveggja ára. Högaberg var smíðað 2014, en var ekki smíðað fyrir Færeyinga, heldur Norðmenn en var síðar keypt til Færeyja.

Næst má nefna Finn Fríða, Borgaran og Norðing, sem eru smíðuð 2003 og eru því 17 ára. Þá kemur Christian Í Grótinum frá 2002. Jupiter, Arctic Voyager, Katrin Jóhanna og Fagrabergeru eru á þrítugsaldri. Næst elsta skipið í þessum flota er Fram, sem er 31 árs og loks er Hoyvík elst, 41 árs.

Mörg skip á sölulista

Fregnir herma að þegar séu hafnar viðræður um endurnýjun margra þessara skipa eftir breytta fiskveiðistjórnun. Sex skip hafa þegar verið sett á sölulista, en það eru Jupiter, Arctic Voyager, Fram, Hoyvík, Christian í Grótinum og Sættaberg, en það síðastnefnda er ekki í útgerð nú.

Loks má nefna að tvö skip, sem vinna aflann um borð eru ekki í þessari upptalningu, en það eru Tummas og Næraberg.

Þá er nú búið að skrifa undir smíðasamning við Tyrkneska skipasmíðastöð umm nýjan frystitogara í stað Gadus.

Fréttaskýring þessi birtist einnig í nýjasta tölublaðið Sóknarfæris. Það er gefið út af Ritformi og er dreift til allra fyrirtækja í landi og er aðgengilegt á slóðinni ritform.is

 

 

 

 

Deila: