„Uppsjávarskipin eru okkar ljúfi vorboði“

199
Deila:

Töluverð umferð skipa hefur verið í Slippnum Akureyri undanfarin misseri. Snemma í síðasta mánuði voru sjö skip af öllum stærðum og gerðum samtímis hjá Slippum í ýmiskonar þjónustu.

Uppsjávarskipið Jóna Eðvalds SF frá Hornafirði var í slipp í tæpar þrjár vikur þar sem skipið var heilmálað, hliðarskrúfa tekin upp, skipið öxuldregið og viðgerðir framkvæmdar á stýrisbúnaði.

Uppsjávarskip eru algeng sjón í Slippnum snemmsumars. Eftir loðnuvertíð og í mörgum tilvikum nokkra vikna kolmunnaúthald, eru vikurnar fram að makrílvertíð nýttar til viðhalds og endurbóta. Þessi tími er því oft fjörlegur hér í Slippnum og nauðsynlegt að nýta tímann til hins ýtrasta. Í kjölfar Jónu Eðvalds komu svo Sigurður VE auk Bjarna Ólafssonar AK og er nú verið að vinna í báðum þessum skipum. Í kjölfar sjómannadagsins fara uppsjávarskipin svo að streyma eitt af öðru til makrílveiða.

Plötuskipti og heilmáling fóru fram á dýpkunarskipinu Pétri Mikla og gröfuprammanum Reyni sem eru í eigu Björgunar ehf. Viðgerðir voru unnar á skrúfu og stýrisbúnaði á Nøtte sem er þjónustubátur Laxa ehf.

Frystiskipið Sólberg ÓF sem er í eigu Ramma hf. var í flotkvínni þar sem botn var málaður sem og síður og frystilest. Breytingar voru gerðar á stýrisbúnaði sem er engin smásmíði ásamt öðrum minni viðhaldsverkefnum. Ragnar Aðalsteinsson útgerðarstjóri Ramma var ánægður með verkið.

„Það er óneitanlega mikill kostur að geta tekið svona stórt skip á þurrt nálægt heimabyggð og fengið alla almenna þjónustu. Þær breytingar sem voru gerðar tókust vel og kláraði Slippurinn verkið á tilsettum tíma sem var okkur mjög mikilvægt“.

Erlendu frystiskipin Polonus og Angunnguaq II hafa verið hjá Slippnum Akureyri í töluverðan tíma og er áætlað að þau haldi til veiða á næstu vikum.

Það má því segja að það sé líf og fjör á athafnasvæði Slippsins og er fyrirliggjandi að það haldi áfram á komandi mánuðum.

Deila: