Uppsjávarveiðarnar blómstra

103
Deila:

Þegar þetta er ritað er verið að ljúka við að landa 1.600 tonnum af norsk-íslenskri síld úr Beiti NK í Neskaupstað. Að sjálfsögðu fer síldin öll til manneldisvinnslu. Þá er einnig nýlokið við að landa 1.100 tonnum af kolmunna úr Barða NK en sá afli fer til framleiðslu á fiskimjöli.

Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar, skipstjóra á Beiti, og spurði hvað væri næst á dagskrá hjá þeim Beitismönnum. „Að löndun lokinni verður stefnan tekin á Rósagarðinn og kolmunnanum sinnt. Vonandi á það eftir að ganga vel. Hvað gerist svo er ég ekki með á hreinu en ekki er ólíklegt að loðnunótin verði tekin um borð næst þegar í land verður komið.

Loðnuvertíðin er svo sannarlega tilhlökkunarefni og maður finnur spennuna í loftinu. Staðreyndin er sú að uppsjávarveiðarnar blómstra um þessar mundir. Veiðar á norsk-íslensku síldinni hafa gengið frábærlega og hún hefur veiðst við bæjardyrnar. Kolmunnaveiðarnar hafa líka gengið vel og nú er hann veiddur inni í íslenskri lögsögu sem er afar mikilvægt. Þá kemur fljótlega að veiðum á íslenskri sumargotssíld og ég hef þá trú að þær eigi eftir að ganga eins og í sögu. Það er einungis makríllinn sem hefur verið að stríða okkur, en hann hefur fjarlægst landið og það hefur verið býsna langt að sækja hann. Fyrir okkur, sem erum á uppsjávarskipunum, má segja að þetta sé nánast ein allsherjar veisla,“ segir Tómas.
Það er veisla hjá uppsjávarskipum. Beitir NK með gott hol. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Deila: