Útgáfa breytts leyfis Arnarlax kærð

97
Deila:

Náttúruverndarsamtök Íslands, Náttúruverndarfélagið Laxinn lifi og Íslenski náttúruverndarsjóðurinn hafa kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál þá ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 2. júní s.l. að breyta starfsleyfi Arnarlax ehf. í Tálknafirði og Patreksfirði og heimila að notaðar verði eldisnætur sem litaðar séu með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð.

Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Kæran er enn óafgreidd enda nýkomin inn, en kærendur kröfðust þess að framkvæmdir á grundvelli ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Úrskurðarnefndin afgreiddi þá kröfu í síðustu viku og hafnaði henni.

Úrskurðarnefndin segir að úrskurðar sé að vænta innan lögbundinna tímamarka, sem eru 3 – 6 mánuðir. Á þeim tíma verður ekki talið að komi fram slík umhverfisáhrif vegna notkunar ásætu­varnanna að kæruheimild verði þýðingarlaus, segir í úrskurði nefndarinnar, enda hafi Umhverfisstofnun ákveðnar heimildir fari styrkur kopars yfir viðmiðunarmörk. Að sama skapi verður að telja hættu á að frestun á því nota hinar nýju eldisnætur myndi hafa í för með sér tjón fyrir leyfishafa segir í úrskurðinum. Því sé ekki heimilt að stöðva notkun nótapoka með ásætuvörnum sem innihalda koparoxíð á meðan meðferð máls þessa stendur yfir.

Mun úrskurðarnefndin því taka fyrir kæruna sjálfa og afgreiða hana ánæstu mánuðum.

Önnur kæra frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og náttúruverndarfélaginu Laxinn lifi  varðandi eldisnæturnar með þessum ásætuvörnum er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Sú kæra var lögð inn í febrúar. Þar er kærð ákvörðun Skipulagsstofnunar sem ákvað að ekki þyrfti að gera umhverfismat vegna þessara breytinga. Þar var einnig farið fram á stöðvun þess að taka upp ásætuvarnirnar þar til úrskurðarnefndin hefði afgreitt kæruna. Úrskurðarnefndin hafnaði því og benti á að laxeldisfyrirtækið fengi engar heimildir fyrr en með breytingu á starfsleyfinu og þá gæfist færi á því að kæra. Má því segja að fyrra kæran hafi verið að tilefnislausu og að hin efnislega kæruefni felist í seinni kærunni.
Frétt af bb.is

Deila: