-->

Útgerðir í Eyjum kaupa Portland

Útgerðarfélögin Dala-Rafn og Glófaxi í Vestmannaeyjum hafa nú gengið inn í kauptilboð útgerðarfyrirtækisins Sólbakka, sem gerir út Örn KE, í bátinn Portland VE ásamt veiðiheimildum þess. Skipið hefur verið í eigu afkomenda aflakóngsins Binna í Gröf. Veiðiheimildirnar eru um 250 þorskígildistonn, þar af um 100 tonn þorskur. Undirritaður hafði verið samningur milli Sólbakka og Kæju ehf, útgerðar Portlands upp á ríflega 400 milljóna króna greiðslu fyrir skip og aflaheimildir. Vestmannaeyjabær ákvað síðan að nýta sér forkaupsrétt að skipinu og heimildum þess í samræmi við gildandi lög um framsal aflaheimilda. Þetta var bænum fært þar um var að ræða sölu á skipi og aflaheimildum, en ekki hlutfélagi eins og í tilfelli sölunnar á Berg-Huginn fyrir nokkrum mánuðum til Síldarvinnslunnar. Þar var hlutfélagið selt í heild.
Örn Erlingsson, eiganda Sólbakka, er ósáttur við gang mála. „Það var búið að fullvissa mig um það af eigendum Portlands að skipið og kvótinn hefði verið boðinn til sölu í Eyjum, en enginn hefði vilja kaupa. Ennfremur að bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum, Elliði Vignisson, hefði fullyrt að bærinn myndi ekki nýta sér forkaupsréttinn. Á þeim forsendumm skifaði ég undir tilboðið. En greinilega hafa viðkomandi aðilar haft eitthvað annað í huga og því er þetta úr sögunni,“ segir Örn í samtali við kvotinn.is

 

„Þar með munu þessir aðilar eignast Portlandið ásamt öllu því sem fylgir og fylgja ber þ.m.t. tilheyrandi aflahlutdeild og aflamark ásamt öllum veiðafærum. Aðkomu Vestmannaeyjabæjar að málinu er þar með lokið.  Vestmannaeyjabær fagnar því að með þessu samkomulagi er tryggt að umræddar aflaheimildir fari ekki frá Vestmannaeyjum með tilheyrandi skaða fyrir samfélagið,“ segir í tilkynningu frá Vestmannaeyjabæ.

 

Þar segir jafnframt að kaupendur leggi traust sitt á nýja ríkisstjórn í að standa við yfirlýsingar um að treysta rekstrargrunn sjávarútvegsfyrirtækja með endurskoðun á veiðileyfagjaldi og fl. Slíkt verður að vera forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar.

 

„Sjávarbyggðir, útgerðamenn og íbúar bíða því eftir efndum stjórnarflokkanna á þeim loforðum sem eru grunndvöllurinn að velgengni sjávarútvegsins og sjávarsamfélaga.“