-->

Úthafskarfakvótinn kláraður

Allur kvóti íslenskra skipa af úthafskarfa náðist fyrir sjómannadaginn. Leyfilegt var að veiða um 8.000 tonn og samkvæmt tölum Fiskistofu varð aflinn  nú 8.315 tonn. Í fyrra veiddust um 6.000 tonn og árið áður um 11.000 tonn. Kvótinn nú dugði 13 skipum í eina veiðiferð. Aflahæsta skipið  nú varð Gnúpur GK með 850 tonn, næst kom Snæfell EA með 778 tonn og loks Mánaberg ÓF með 773.

Um veiðarnar er fjallað á heimasíðu HB Granda: „Öllum fjórum frystitogurum HB Granda, sem hófu úthafskarfaveiðar þann 10. maí sl., tókst að ná kvótum sínum fyrir sjómannadaginn. Kvótinn var reyndar með minnsta móti í ár eða aðeins 650 tonn af karfa upp úr sjó á hvert skip eða samtals 2.600 tonn.
Mjög góð veiði var á lögsögumörkunum á Reykjaneshryggnum að þessu sinni á meðan veiðum íslenskra skipa stóð. Samkvæmt íslenskri reglugerð mega skipin ekki hefja veiðar fyrr en 10. maí en fyrir þann tíma höfðu m.a. rússneskir togarar fengið mjög góðan afla. Reyndar svo góðan að þeir voru búnir að veiða þau 15% af heildarkvóta Rússa, sem heimilt var að veiða fram til 10. maí, einum tveimur dögum fyrr.
Úthafskarfavertíðin í fyrra var íslenskum útgerðum og sjómönnum veruleg vonbrigði. Mjög góð veiði hafði verið hjá Rússunum í um hálfan mánuð áður en íslensku skipin máttu hefja veiðar. Síðan hækkaði sjávarhitinn og við það virðist karfinn hafa dreift sér og þurftu íslensku áhafnirnar að hafa mikið fyrir veiðunum. Heildarkvótinn var í framhaldinu skorinn niður en miðað við aflabrögðin í maímánuði í ár virðist ástand stofnsins vera betra en margir hugðu.“