Úthlutun byggðakvóta fyrir Flateyri frestað

Deila:

Byggðastofnun hefur ákveðið að fresta úthlutun aflamarks á Flateyri og veita umsækjendum færi á því að uppfæra umsóknir. Ákvörðun um ráðstöfun heimildarinnar átti að taka föstudaginn 15. nóvember. Jafnframt fá umsækjendur færi á að funda með fulltrúum stofnunarinnar, samkvæmt frétt á ruv.is

Þetta gerist í kjölfar þess að BB.is birti að Aflamarksnefnd Byggðastofnunar ætlaði að mælast til þess við stjórn stofnunarinnar að aflaheimildinni yrði úthlutað til fiskvinnslunnar Íslandssögu ehf. og samstarfsaðila. Á þeim tíma hafði stjórn Byggðastofnunar hvorki fengið tillöguna eða fylgigögn í hendurnar.

Þá birti BB.is einnig að ákvörðun hafi verið frestað.

Fyrir byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda

Aflamark Byggðastofnunar eru aflaheimildir sem stofnunin hefur til ráðstöfunar til að styðja byggðarlög í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Samningar geta verið gerðir við fiskvinnslur eða útgerðarfélög til allt að sex ára í senn og eru gerðir í samráði við sveitarstjórn viðkomandi sveitarfélags. Umrædd aflaheimild er eyrnamerkt Flateyri.

Vilja tryggja að umsækjendur sitji við sama borð

Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar, segir eftir að tillagan og undirbúningsgögn, sem voru enn í vinnslu, komust út höfðu umsækjendur samband við Byggðastofnun.

„Það þótti bara rétt að gefa þeim kost á að uppfæra ef þeir vildu gera það og bjóða þeim að eiga fund ef þeir vildu skýra umsóknirnar frekar. Markmiðið er að tryggja eftir fremsta megni að allir umsækjendur sitji við sama borð og fái að koma sömu upplýsingum á framfæri,“ segir Aðalsteinn.

Jafnframt segir hann að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafi kvartað undan því að hafa fengið of skamman tíma til umsagnar. Frestun á ákvarðanatöku sé því einnig vegna þess.

Aflamarkið nær til alls vinnusóknarsvæðisins

Þótt að aflaheimildin, sem er 400 þorsksígildistonn, sé eyrnamerkt Flateyri, er það ekki krafa að samið sé við aðila sem eru staðsettir í því byggðarlagi, heldur einungis að þeir séu innan vinnusóknarsvæðis. Vinnusóknarsvæðið telur alla þéttbýlisstaði á norðanverðum Vestfjörðum; Flateyri, Þingeyri, Suðureyri, Ísafjörð, Bolungarvík og Súðavík.

Aðalsteinn vill ekki segja til um hvenær ákvörðun um úthlutun aflamarksins verður tekin.

„Þetta er bara í vinnslu og við viljum tryggja að allir sitji við sama borð og vanda til ákvarðanatökunnar,“ segir hann.

 

Deila: