-->

Útvegurinn og þjóðin njóta aukningarinnar

„Aðalatriðið er að ráðgjöfin er mjög ánægjuleg. Hún sýnir að hin vísindalega nálgun sem við byggjum fiskveiðistjórnunarkerfi okkar á virkar. Það er ekki bara að þorskurinn sé að aukast á þessu ári og undangengnum árum, heldur eru horfurnar á næstu árum mjög góðar á ennfrekari aukningu. Við munum svo í samráði við alla hagsmunaaðila byggja ákvörðun okkar á þessari ráðgjöf og því kerfi sem við höfum haft, sem er aflahlutdeildarkerfið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, í samtali við kvotinn.is

Það verður þá ekki tekið aukið hlutfall framhjá aflahlutdeild eins áform voru um hjá fráfarandi ríkisstjórn? „Það er augljóst eins fram kemur í stjórnarsáttmálanum, að horfið verður frá þeirri braut sem fráfarandi ríkisstjórn var á, að taka sífellt meira af útgefnum aflaheimildum fyrir utan aflahlutdeildina. Við munum byggja fiskveiðistjórnun nú og til framtíðar á aflahlutdeildarkerfinu, því kerfi sem við höfum haft, en jafnframt hafa áfram þær byggðastyrkjandi aðgerðir og félagslegar úthutanir sem eru fyrr hendi. Það er ekki markmiðið að auka þær. Nú munum við fara yfir ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar og hafa samráð við alla hagsmunaaðila áður en ég kveð upp minn úrskurð um veiðiheimildir á næsta ári og úthlutun þeirra. Það verður væntanlega einhvern tíman í næstu viku,“ segir Sigurður Ingi.
En það er fleira á döfinni sem snertir sjávarútveginn. „Í næstu viku mun koma fram frumvarp á sumarþinginu sem tekur á veiðileyfagjaldinu. Þar verður reyndar ekki tekið á framtíðarskipan gjaldsins, því ekki hefur gefist tími til að útfæra það. Það kerfi sem átti að taka gildi fyrsta september hefur reynst vera ónothæft eins og við í stjórnarandstöðunni bentum á á sínum tíma. Það er því sjálfgert að hverfa frá þeirri aðferð og þeim lögum sem lutu af því og það munum við gera nú. Sjávarútvegurinn mun því njóta þessarar aflaaukningar og þjóðarbúið ekki síður,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson.