Vaknaði í brennandi frystihúsi

371
Deila:

Einn maður gisti í frystihúsinu sem kviknaði í í Hrísey í nótt. Var hann nývaknaður þegar eldurinn kom upp og tókst að koma sér út og hringja í Neyðarlínuna. Frystihúsið, sem er stærsti vinnustaðurinn í eynni, gjöreyðilagðist í brunanum samkvæmt frétt á ruv.is.

Í frystihúsinu er svefnaðstaða þar sem maðurinn, sem er starfsmaður fyrirtækisins, svaf um nóttina. Hann vaknaði um sexleytið og varð var við eldinn. Honum tókst að koma sér út og er heill á húfi.

Á þriðja tug slökkviliðsmanna börðust við eldinn og tókst að slökkva hann upp úr klukkan tíu í morgun. Hann kviknaði í matsal og starfsmannaaðstöðu frystihússins og náði yfir í nærliggjandi hús. Ammoníak og gastegundir voru í frystihúsinu og voru íbúar beðnir um að loka öllum gluggum og kynda vel í húsum sínum til að hindra að reykur bærist inn.

Kæligeymslur allar fullar af fiski

Ágúst Ólafsson fréttamaður er í Hrísey. Hann sagði í hádegisfréttum útvarps að það væri rosaleg sjón að horfa yfir svæðið. Fiskvinnsluhúsin væru að stórum hluta hrunin, en enn er verið að dæla yfir glæðurnar sem enn leynast.

„Þetta er alveg gríðarlegt áfall. Þetta er stærsti vinnustaðurinn í eyjunni og hefur verið í langan tíma. Þetta er gríðarleg blóðtaka,“ sagði Kristinn Frímann Árnason, íbúi í Hrísey, í samtali við Ágúst. Kristinn segir að kæligeymslur frystihússins hafi verið fullar af fiski og fiskur hafi beðið á bryggjunni eftir því að komast í vinnslu. Þá voru aðstæður mjög erfiðar.

„Það var ekki hægt að hafa óhagstæðari vind, það fór allt yfir þorpið svo það mátti rýma svo að segja öll hús,“ sagði Kristinn.

 

Deila: