-->

Var 15 ára á frystitogara í Smugunni

Maður vikunnar er Hornfirðingur en starfar hjá Búlandstindi á Djúpavogi. Hún byrjaði átta ára að fylla á nálar í netaskúrnum hjá pabba sínum. Var síðan í humri hjá Borgey, en skellti sér svo ung á sjóinn.

Nafn:
Ágústa Margrét Arnardóttir.

Hvaðan ertu?
Hornafirði.

Fjölskylduhagir?
Ég á (sjó)mann og saman eigum 5 börn á aldrinum 4, 6, 12, 13 og 15 ára.

Hvar starfar þú núna?
Mannauðs- og gæðastjóri í Búlandstindi á Djúpavogi.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Ég var örugglega bara um 8 ára þegar ég fyllti nálar í netaskúrnum hjá pabba. Sumarið sem ég var 13 ára byrjaði ég í Borgey á Hornafirði og vann tvö og hálft sumar í humri og á línu en þá fannst mér glórulaust að vinna í fiski í landi fyrir mun minni pening en til sjós. Ég fór því í einni pásunni um borð í Silfurnesið SF og bað um að fá að fara sem gestur einn túr. Það var upphafið af sjómannsferli sem spann yfir 12 ár í fullu starfi og með skóla. Ég fór í land 10 mánuðum fyrir fæðingu fyrsta barnsins míns og hef ekki farið á sjóinn í um 16 ár núna. Í 10 ár vann ég með íslenskt fiskiroð í hönnun og handverki en undanfarið eitt og hálft ár hef ég verið í fiskvinnslufyrirtækinu Búlandstindi.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg? 
Fjölbreytileikinn og tækifærin. Að tækla það sem þarf að tækla og takast á við krefjandi áskoranir, finna lausnir, gera áætlanir, ná markmiðum, uppskera, læra og þróast. Að vera partur af uppbyggingu. Og mannlegi parturinn: að hlusta á samræðurnar í borðsölum bátanna, spjalla við starfsfólkið í kaffitímunum, teymisfundir og fleira.

En það erfiðasta?
Það erfiðasta er líklega að halda „coolinu“, vera bjartsýn/n og halda áfram þegar á móti blæs t. d. í aflabresti, brælum og óvissu. Sjávarútvegurinn er óútreiknanlegur, allt getur gerst. Við getum ekki stjórnað veðrum, veiðum, mörkuðum, heimsfaröldum eða öðru fólki. Að stjórna sjálfum sér, sýna æðruleysi og halda áfram í svona aðstæðum getur verið krefjandi, en það getur líka verið spennandi.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Það er þegar við vorum að klára að vinna aflann úr síðasta hollinu á frystitogaranum Andey í Smugunni þegar ég var um 15 ára. Skipstjórinn skipaði okkur að hætta að vinna og koma upp í brú. Þar voru tveir norskir strandgæslumenn í fullum skrúða nýkomnir um borð sígandi úr þyrlu. Þetta var þegar Smugudeilurnar stóðu sem hæst og til stóð að senda okkur mögulega til Noregs fyrr ólöglegar fiskveiðar. Þetta var auðvitað stór lífsreynsla fyrir unglings stelpu og ég vonaði að við yrðum send til Noregs og var ofsalega spennt yfir þessu öllu. Við fengum þó að fara heim en það er skemmtilegt og kannski smá skrítið að hafa upplifað þetta í lífinu.

Hver er eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Þeir voru margir ansi skrautlegir og ógleymanlegir á Melavíkinni þegar ég var þar en sá sem ég met mest að hafa fengið tækifæri til að vinna með er pabbi minn Öddi Þorbjörns, sá sem kenndi mér mest var Kalli Óla frændi minn og það er auðvitað eftirminnilegt og gaman að hafa verið til sjós og unnið með manninum mínum Guðlaugi Birgissyni sem nú er útgerðarmaður og skipstjóri á Öðlingi SU.

Hver eru áhugamál þín?
Ég brenn fyrir allt sem tengist mannlegri hegðun og hugsun, samskiptum og samböndum. Uppeldismál eru mér hugleikinn. Svo elska ég að leika mér, ferðast, vera úti í náttúrunni, skapa eitthvað, fræðast og auka færni mína sem mest. 

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Allt sem mamma Unnur Garðarsdóttir og Hildur systir elda. Og pizzurnar hjá bræðrum mínum á veitingastaðnum Íshúsinu á Höfn.

Hvert færir þú í draumfríið?
Langþráð stórfjölskyldufrí til Tenerife með foreldrum mínum, bræðrum, mökum, börnum og móðursystir í tilefni af 70 ára afmæli pabba á árinu er í næstu viku. Það er búið að vera draumur minn í mörg ár. Á „bucket“ listanum eru svo jóga og brimbrettaferð í einhverja paradís, gönguferð um svissnesku alpana, skoðunarferð í Týndu borgina, heimsókn til vinkonu á Spáni, jólaferð til Zakopane og margt fleira. Þetta má gerast í hvaða röð sem er. Heimurinn er svo stór og spennandi og ég vil sjá hann allan.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Brottkast – viðvarandi verkefni

„Á líðandi ári varð veruleg fjölgun mála hjá Fiskistofu er varða brottkast og rekja má fjölgunina til þess að eftirlit var b...

thumbnail
hover

Lítið um hrygningu loðnu fyrir Norðurlandi...

Ætla má að lítið magn að loðnu hafi hrygnt á grunnslóð fyrir Norðurlandi í sumar. Vísbendingar eru um að meira af loðnu hafi ...

thumbnail
hover

Ísleifur VE dró Kap VE til...

Aðalvélin í Kap VE bilaði þegar skipið var á loðnumiðum fyrir norðaustan landið á mánudag. Annað skip frá Vinnslustöðinni, ...