Varðskipið Óðinn kemur á Sjóarann síkáta í Grindavík

Deila:

Sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti verður haldin í Grindavík um sjómannadagshelgina, 10.-12. júní, til heiðurs íslenskum sjómönnum og fjölskyldum þeirra. Á hátíðinni er mikið lagt upp úr fjölbreyttri fjölskyldudagskrá alla helgina. Á hátíðinni kemur fram fjöldi tónlistarmanna og skemmtikrafta auk þess sem veitinga- og skemmtistaðir bjóða upp á viðburði.

Meðal þeirra sem fram koma í Grindavík þessa helgi verða Emmsjé Gauti, Stuðlabandið, Auddi og Sveppi, Jón Jónsson, ClubDub, Papar, Guðrún Árný, Pálmar Örn, Nýju fötin keisarans, BB Brothers, Ronja ræningjadóttir, Latibær, BMX brós, nemendur úr Danskompaní og Grindavíkurdætur.

Þá mun fyrrum varðskipið Óðinn sigla inn í Grindavíkurhöfn laugardaginn 11. júní og vera þar til sýnis yfir daginn. Frítt verður í leiktæki á hafnarsvæðinu á laugardegi og sunnudegi.

Hátíðin fyrst haldin árið 1996

 Sjóarinn síkáti er rótgróin hátíð. Hún var fyrst haldin árið 1996 og hefur vaxið og dafnað síðan þá. Föstudagurinn einkennist af hátíðarhöldum og þátttöku heimamanna. Íbúar skreyta götur og hús í litum hverfa og klæða sig í samræmi við lit síns hverfis. Farin er Litaskrúðganga niður að hátíðarsvæðinu við Hafnargötu og markar hún upphaf hátíðarhaldanna. Íbúar og gestir safnast saman á hátíðarsvæðinu og taka þátt í fjöldasöng. Kvöldið endar á Bryggjuballi á hátíðarsvæðinu.

Á laugardeginum er boðið upp á fjölbreytta barnadagskrá. Hægt er að fara í skemmtisiglingu, fjöldi leiktækja er í boði fyrir gesti og andlitsmálun fyrir þá sem vilja. Tónleikar og viðburðir eru á veitingastöðum bæjarins og á hátíðarsviðinu verður fjölbreytt dagskrá fyrir börn á öllum aldri. Sunnudagurinn einkennist af hátíðarhöldum sjómannadagsins, til heiðurs sjómönnum og fjölskyldum þeirra. Hátíðarmessa verður í Grindavíkurkirkju þaðan sem gengið verður í Sjómannagarðinn þar sem krans verður lagður að minnisvarðanum Von. Þaðan liggur leiðin að hátíðarsvæðinu og eftir athöfn þar hefst fjölbreytt barnadagskrá. Leiktæki, andlitsmálning, fiskabúr með nytjafiskum og furðufiskum verða við höfnina. Eldri borgarar í Víðihlíð halda daginn hátíðlegan og fá til sín góða gesti.

Deila: