Veður hamlar loðnurannsóknum

86
Deila:

Vont veður og hafís hefur truflað þau tvö rannsóknarskip sem nú eru við loðnurannsóknir norður og vestur af Íslandi. Þessi leiðangur sker úr um hvort og þá hve mikið verður heimilt að veiða á komandi loðnuvertíð samkvæmt frétt á ruv.is.

Ísland og Grænland standa saman að þessum rannsóknum og fór rannsóknarskipið Eros af stað sjöunda september og Árni Friðriksson viku síðar. Skipin hafa nú farið yfir stórt svæði frá suðausturströnd Grænlands og austur með öllu Norðurlandi.

Loðna við ísröndina

Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri, er um borð í Árna Friðrikssyni og hann segir veður hafa tafið fyrir en bæði skip eru núna á Grænlandssundi. „Það er svona vindstrengur út af Vestfjörðum og þar sem Árni Friðriksson er við strendur Grænlands, þar erum við komnir í vandræði út af ís. Sem er miður því að við höfum verið að sjá loðnu hérna við ísröndina.”

Enn talsvert svæði órannsakað

Hann segir enga loðnu að sjá norður af Íslandi, ekki fyrr en komið er vestur fyrir Kolbeinseyjarhrygg. Það sé þó loðna á Grænlandssundi og með landgrunnskantinum uppi við Grænland. Þeir eigi síðan eftir að fara norður með austurströnd Grænlands, yfir algeng útbreiðslusvæði loðnunnar á þessum tíma. „Það er ekki komin nein heildarmynd til að lesa í ennþá. En við höfum verið að sjá loðnu hérna síðustu daga.”

Ráðgjöfin frá í fyrra endurskoðuð

Í leiðangri á sama tíma í fyrra mældist vel af ungloðnu og í kjölfarið var talið ráðlegt að upphafskvóti á loðnuvertíðinni yrði 170 þúsund tonn. Sú ráðgjöf verður endurskoðuð eftir þennan leiðangur. „Það getur margt gerst í millitíðinni frá síðustu mælingu þangað til nú.”

Stefna langt norður með Grænlandi

Birkir segir að áhöfnin á Eros ljúki þátttöku í verkefninu 26. september en þeir á Árna Friðrikssyni haldi áfram til 5. október. „Það verður einfaldlega þannig að skipin munu saman reyna að klára hérna í Grænlandssundi. Árni mun síðan halda áfram með landgrunnskanti Austur-Grænlands og halda þar norður eftir. Við áætlum að fara jafnvel norður undir 75 gráður norður.“

 

Deila: