Veiðar í Rússasjó ganga vel

Deila:

Veiðar íslenskra frystitogara innan lögsögu Rússa í Barentshafi hafa gengið mjög vel. Kleifaberg RE er til dæmis á leið heim með fullfermi og Blængur NK er við það að klára túr. Veiðiheimildir í Rússasjó eru nú tæplega 5.600 tonn miðað við slægt. 3.300 vegna Smugusamningsins og 2.300 hafa verið leigð samkvæmt ákvæðum í þeim samningum.

Eftir tilfærslur á heimildum milli skipa eru það sex skip, sem sækja sjóinn þarna uppfrá í sumar. Auk Kleifabergs og Blængs eru það Vigri RE og Örfirisey RE, Arnar HU og Sólberg ÓF. Afli Kleifabergsins nú er um þúsund tonn af þorski upp úr sjó og gengu veiðarnar mjög vel.

Á aflastöðulista Fiskistofu eru veiðiheimildir skráðar miðað við slægðan afla. Samkvæmt listanum er Blængur með mestar heimildir, 1.400 tonn, Sólbergið er með  1.100 tonn, Örfirisey og Vigri 921  tonn hvort skip, Kleifaberg 767 tonn og Arnar 500 tonn. Samkvæmt listanum hefur ekkert skip enn landað afla af þessum slóðum.
Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra í upphafi vikunnar og spurði hvernig veiðiferðin gengi. „Það er ekki hægt að segja annað en að hún gangi vel. Fiskiríið hefur verið framar vonum og veðrið hefur að langmestu leyti verið gott. Við erum núna að veiða talsvert fyrir austan Múrmansk og erum skammt frá 12 mílna línunni. Aflinn hefur verið jafn og góður og við erum komnir með um 850 tonn upp úr sjó. Þetta er að langmestu leyti stór og góður þorskur.

Þetta er miklu betri veiði en var hér í fyrra og eins gengur vinnslan um borð sífellt betur hjá okkur. Við höfum komist upp í að vinna 80 tonn á sólarhring. Að loknum yfirstandandi sólarhring má gera ráð fyrir að verðmæti aflans í veiðiferðinni sé um 300 milljónir og það er ekki hægt annað en að vera ánægður með það,“ segir Bjarni Ólafur.

 

Deila: