Veiðidagar verði aldrei færri en 48

121
Deila:

Tillaga sjávarútvegsráðherra um breytingar á strandveiðikerfinu lagðist afar illa í fundarmenn á aðalfundi Snæfells.   Einhugur var um að mótmæla því harðlega að hverfa aftur til fyrra veiðikerfis sem allir flokkar á Alþingi samþykktu að leggja af 2018.  Þar hefði vegið þungt að breytingin mundi auka öryggi sjómanna á strandveiðibátum.  Nú væri brýnt að stíga lokaskrefið í átt til öruggari veiða með því að tryggja að dagar til strandveiða verði aldrei færri en 48 talsins. Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda. Þar segir ennfremur.

Grásleppumál

Einhugur var um að fordæma vinnubrögð sjávarútvegsráðherra við framkvæmd grásleppuveiða á síðustu vertíð.  Með þeim hefði grásleppuútgerðum verið freklega mismunað og skemmdarverk unnið á stjórnkerfi veiðanna.

Mestur hluti grásleppuumræðunnar fór hins vegar í að ræða hvort áfram ætti að byggja veiðistjórn á núgildandi kerfi eða kvóta á hvern bát.  Bæði kerfin hefðu sína kosti og galla.  Samkomulag var um að ef sett yrði á aflamark yrði að tryggja að allir sem væru með grásleppuleyfi í dag fengju einhverja veiðiheimildir.

Línuívilnun

Mikilvægi línuívilnunar væri nú meira en oft áður, þegar horft væri til aukins atvinnuleysis.  Bregðast þyrfti við með að hækka ívilnun úr 20% í 30% og tryggja öllum dagróðrabátum línuívilnun.

Sektir í stað reglugerðarlokana

Á fundinum var rædd skýrsla starfshóps um „faglega“ endurskoðun varðandi notkun veiðarfæra, veiðisvæða og verndunarsvæða á Íslandsmiðum.  Hugmyndum hópsins um lokun svæða fyrir handfæraveiðum var harðlega mótmælt.  Í stað reglugerða- og skyndilokana á handfæraveiðar ætti að beita sektum eða sviptingu veiðileyfis á þá aðila sem koma með of smáan fisk að landi.

Stjórn Snæfells

Runólfur Kristjánsson formaður

Bergvin Snævar Guðmundsson

Guðlaugur Gunnarsson

Lúðvík Smárason

Valentínus Guðnason

 

Deila: