-->

Veiðiferðin var ein allsherjar bræla

,,Það er óhætt að segja að þessi veiðiferð hafi verið ein allsherjar bræla. Við veiddum þegar veðrið dúraði aðeins og í raun má segja að heildaraflinn hafi verið miklu meiri en hægt var að vonast eftir. Við vorum með um 980 tonn upp úr sjó en þar af var um 400 tonnum millilandað í Reykjavík eftir fyrsta hluta túrsins.”

Þetta segir Þór Þórarinsson, skipstjóri á frystitogaranum Örfirisey RE í samtali á heimasíðu Brims, en Þór og hans menn komu til hafnar í Reykjavík um miðja vikuna eftir rúmlega mánaðarlanga útiveru. Allan þennan tíma var bræla á miðunum og að auki lenti áhöfnin í því að skipið bilaði norður af Vestfjörðum. Tók það þrjá daga að gera við bilunina á Ísafirði.

,,Það var óveiðandi á Vestfjarðamiðum í upphafi veiðiferðarinnar. Því byrjuðum við fyrir sunnan Reykjanes. Aflinn var þokkalegur þótt það hafi ekki viðrað vel og við vorum mest með ufsa, djúpkarfa og gullkarfa. Millilöndun var í Reykjavík 10. október, að mig minnir, og þegar við fórum út eftir hana þá fórum við aftur á SV-mið. Það var gott ufsaskot á Fjöllunum í um tvo daga en þá tók fyrir aflann og orðið tímabært að drífa sig norður á Vestfjarðamið,” segir Þór en að hans sögn var byrjað á Kópanesgrunni í kantinum vestur af Vestfjörðum.

,,Við drógum svo norð-austur eftir kantinum alveg norður á Halann. Það fékkst ágætur afli í kantinum og þar var fín veiði af stórum og góðum ufsa. Á Halanum var hins vegar lítið um að vera. Við drógum því austur Djúpálinn en þá bilaði og meiri bræla var væntanleg. Vigri RE dró okkur til Ísafjarðar þar sem gert var við bilunina og við biðum af okkur bræluna.”

Að viðgerð lokinni var haldið austur í Reykjafjarðarál þar sem Þór segir að hafi verið ágæt ýsuveiði.

,,Leiðin lá næst í Þverálinn þar sem hafði verið ágæt þorskveiði dagana á undan. Hún var búin þegar við komum á svæðið. Veðurspáin fyrir Vestfjarðamið var afleit fyrir næstu daga og því var ekki um annað að ræða en að drífa sig aftur suður þar sem við enduðum túrinn,” segir Þór Þórarinsson.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Mast heimilar eldi á sæeyrum í...

Í samræmi við reglugerð nr. 1133/2021 hefur Matvælastofnun ákveðið að skrá Sæbýli rekstur ehf. með fiskeldi í Grindavík. Um...

thumbnail
hover

Gat á kví við Vattarnes –...

Matvælastofnun barst tilkynning frá Löxum Fiskeldi fimmtudaginn 20. janúar um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Laxa við Vattarnes í...

thumbnail
hover

„Norðlendingur“ fyrir austan. Enginn frá borði...

Kaldbakur EA 1 – togari Útgerðarfélags Akureyringa – landaði 110 tonnum á Akureyri í gærmorgun, uppistaða aflans var þo...