Veiðigjaldið veikir samkeppnisstöðu íslensks sjávarútvegs

98
Deila:

„Í helstu samkeppnislöndum Íslands í sjávarútvegi eru til staðar ríkisstyrkir til handa sjávarútvegsfyrirtækjum. Íslenskur sjávarútvegur sker sig úr hópi helstu samkeppnislanda hvað þetta varðar enda greiða íslensk sjávarútvegsfyrirtæki veiðigjald. Ísland er þannig eina landið innan OECD þar sem sjávarútvegur greiðir meira til hins opinbera en greinin fær greitt úr opinberum sjóðum. Sú staðreynd að íslenskur sjávarútvegur geti þrátt fyrir þetta staðist samkeppnina jafn vel og raun ber vitni er til merkis um styrkleika íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins í alþjóðlegu samhengi.
Veiðigjaldið veikir samkeppnisstöðu íslensku fyrirtækjanna en endurspeglar jafnframt efnahagslegan styrk greinarinnar.“

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslunni  Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegi og fiskeldi, sem unnin var að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar segir meðal annars ennfremur:

„Á árunum 2010-2013 voru arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði lægri hjá sjávarútvegsfyrirtækjum en fyrirtækjum almennt, en munurinn var lítill á árunum 2014-2018. Fyrir um aldarfjórðungi voru viðskipti með hlutabréf í nokkrum stærri sjávarútvegfyrirtækjum skráð á markað í Kauphöll Íslands. Flest þeirra voru afskráð í byrjun þessarar aldar og virðist það einkum hafa stafað af minni áhuga fjárfesta til að eiga hluti í sjávarútvegsfyrirtækjum en í fyrirtækjum í öðrum greinum.
Nú er svo komið að einungis eitt sjávarútvegsfyrirtæki er skráð í kauphöll. Flest sjávarútvegsfyrirtæki eru að stofni til fjölskyldufyrirtæki og þó að sum þeirra teljist til stórra fyrirtækja á íslenskan mælikvarða eru þau lítil í samanburði við mörg sjávarútvegsfyrirtæki í nágrannalöndunum.
Þá hefur sjávarútvegurinn sýnt styrk sinn í þeim efnahagsþrengingum sem riðið hafa yfir íslenskt
efnahagslíf á þessari öld. Það kom sterklega í ljós í bankakreppunni eftir 2008 og síðan að nýju eftir
efnahagsþrengingarnar sem leiddu af heimsfaraldri Covid-19. Sjávarútvegur hefur með þessu sýnt að hann getur jafnað sveiflur í hagkerfinu og aukið með því viðnámsþrótt þess.“

Deila: