-->

Veiðigjöld lækkuð um 3,2 milljarða í ár

Verði frumvarp ríkistjórnarinnar um breytingar á veiðigjöldum óbreytt að lögum má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum fyrir aflaheimildir verði 3,2 milljörðum króna lægri á árinu 2013 frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum og að tekjurnar geti orðið 6,4 milljörðum lægri á árinu 2014 en áætlað var.

Þetta kemur fram í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins með frumvarpinu, sem lagt var fram á Alþingi í gærkvöldi.
„Hins vegar má gera ráð fyrir að tekjuskattsgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja í ríkissjóð muni aukast að einhverju marki þar sem veiðigjöld eru frádráttarbær rekstrarkostnaður. Á þessu stigi liggja ekki fyrir aðrar ráðstafanir til að vega upp á móti þessari lækkun á áformaðri tekjuöflun ríkissjóðs. Því verður að gera ráð fyrir að staða ríkissjóðs muni versna sem nemur þessari umtalsverðu tekjulækkun frá því sem áformað var og að þar með verði til muna lengri leið að jöfnuði í heildarafkomunni en gert hafði verið ráð fyrir í ríkisfjármálaáætlun sem fylgdi með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013,“ segir í umsögninni.
Í frumvarpinu er lagt til að sérstök veiðigjöld á fiskveiðiárinu 2013/2014 verði eingöngu ákvörðuð með krónutölu. Samkvæmt upplýsingum um áætlað aflamark frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er áætlað að þær breytingar sem lagðar eru til á veiðigjaldinu muni hafa í för með sér að heildartekjur ríkissjóðs af veiðigjöldunum verði 9,8 mia. kr. á því fiskveiðiári að teknu tilliti til afsláttarreglna.
„Gangi þessi áform frumvarpsins eftir má gera ráð fyrir að það muni fela í sér umtalsverða lækkun sérstaka veiðigjaldsins frá því sem reiknað var með á grundvelli nýlegra laga um veiðigjöld sem tóku gildi um mitt síðasta ár. Samkvæmt þeim lögum var gert ráð fyrir um 14 mia. kr. heildartekjum af veiðigjöldunum fiskveiðiárið 2013/2014 miðað við forsendur ríkisfjármálaáætlunar sem kynnt var sl. haust. Því er ljóst að verði frumvarp þetta að lögum mun það hafa töluverð áhrif til lækkunar á tekjuáætlun ríkissjóðs árin 2013 og 2014. Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig áætlað er að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum fyrir aflaheimildir geti orðið á rekstrar- og greiðslugrunni fyrir þessi ár samkvæmt frumvarpinu borið saman við forsendur fjárlaga 2013 og ríkisfjármálaáætlunarinnar:

Þegar litið er til lækkunar veiðigjaldanna í 9,8 mia. kr. á næsta fiskveiðiári, eins og kveðið er á um í frumvarpinu, má gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum lækki um 3,2 mia. kr. á rekstrargrunni 2013. Þegar metin eru áhrif breytinga veiðigjalda á tekjur ríkissjóðs 2014 skiptir einnig verulegu máli hvert veiðigjaldið verður á fiskveiðiárinu 2014/2015. Ef gert er ráð fyrir að gjaldtakan verði sú sama í krónum talið á því fiskveiðiári, eða alls 9,8 mia. kr., þá má áætla að tekjur ríkissjóðs á rekstrargrunni árið 2014 geti lækkað um 6,4 mia. kr. árið 2014 frá því sem reiknað var með í fyrri ríkisfjármálaáætlun. Vegna samspilsins á milli álagningar og innheimtu í tekjunum af veiðigjöldunum er lækkunin minni á greiðslugrunni eða 0,9 mia. kr. árið 2013 og 4,7 mia. kr. 2014. Í þessu sambandi þarf þó einnig að líta til þess að efasemdir hafa verið um að sjávarútvegsfyrirtæki fengju risið undir því að greiða núgildandi veiðigjöld að fullu án þess að rekstrargrundvöllur a.m.k. sumra þeirra teldist vera orðin brostinn.
Veiðigjöld teljast frádráttarbær rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Að öðru óbreyttu ætti því lækkun veiðigjalds að auka tekjuskattsgreiðslur fyrirtækja um allt að 20% af lækkun veiðigjalda, þar sem lægri veiðigjöld leiða til minni frádráttar frá tekjum. Ef gert er ráð fyrir að fyrirtæki gjaldfæri u.þ.b. ¾ álagðra veiðigjalda strax við upphaf fiskveiðiársins 2013/2014 má reikna með að tekjuskattsgreiðslur þeirra á árinu 2014 vegna rekstrarársins 2013 geti hækkað um allt að 0,6 mia. kr. Frumvarpið hefur engin áhrif á álagðan tekjuskatt 2013. Allar áætlanir um hærri tekjuskatt eru þó mikilli óvissu háðar, m.a. hvað varðar rekstrarafkomu einstakra fyrirtækja og bókhaldsstærða á borð við yfirfæranlegt tap.“
Frumvarpið má sjá í heildsinni á slóðinnu: http://www.althingi.is/altext/142/s/0015.html
Meðfylgjandi mynd er frá Reykjvíkurhöfn, er útgerðarmenn mótmæltu lögum um veiðigjöld og sigldu skipum sínum til hafnar í borginni eftir sjómannadag í fyrra.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason