Veiðiheimildir á strandveiðum hafa aldrei verið meiri

74
Deila:

Strandveiðimenn tóku fagnandi á móti aukningu veiðiheimilda þann 20. júlí sl.  Miðað við fjölda báta og aflabrögð ættu 48 dagar að vera tryggðir, heimildir að duga út ágúst, eins og árinu 2018 og 2019. Aflaviðmiðunin er sú hæsta í 13 ára sögu strandveiða 12.271 tonn, þar af 11.171 tonn af þorski.  Frá þessu er greint á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda og er farið yfir stöðuna þar.
Að loknum 47. degi veiðanna var aflinn kominn í 8.850 tonn, þar af 8.170 tonn af þorski.  Miðað við síðasta ár er þorskafli á dag nánast óbreyttur 174 tonn í ár á móti 175 tonnum í fyrra.

Útgefin leyfi til strandveiða eru komin í 683, átta fleiri en á síðasta ári.  Flestir hafa leyfi til veiða á svæði A, alls 260.  
Aflabrögð innan einstakra svæða hafa verið mjög misjöfn.  Á Austurlandi hefur veðurfar hamlað sjósókn og aflatölur víðast hvar lægri en í fyrra.  Sé svæði C skoðað í heild eru aflabrögð hins vegar betri en sl. sumar, 12,1 tonn að meðaltali á bát á móti 10,4 tonnum.  

Sömu sögu er ekki hægt að segja um svæði D.  Einhverjir myndu segja að þar hafi veiði hrunið.  Afli á hvern bát rúmum fjórðungi minni, 12,2 tonn niður í 9,1 tonn að meðaltali á bát. 

Almenn ánægja er meðal strandveiðimanna með fiskverðið.  Meðalverð á óslægðum þorski sem seldur er á fiskmörkuðum leggur sig á 331 kr/kg á móti 268 kr/kg á sama tímabili í fyrra.  Framkvæmdastjóri LS átti einkar ánægjulegt samtal við strandveiðisjómann á Húsavík nú nýverið, sem benti á þorskinn í karinu og sagði, „þetta eru allt fimmhundruð kallar þarna“.

Grafið sýnir þróun á verðinu og samanburð við sama tímabil síðasta árs.

Meðalverð 2021 – 331 kr/kg  /  2020  268 Kr/kg

Hæsta verð 2021 – 424 kr/kg – 110 tonn – 21. júlí /   2020;  381 kr, 56 tonn, 18. júlí

Mesta magn 2021 263 tonn, 8. júní, 390 kr  /  2020;  369 tonn 18. júní  213 kr/kg.

Deila: