Venus landaði á Vopnafirði

Deila:

Uppsjávarveiðiskipið Venus NS landaði 2.500 tonnum af kolmunna á Vopnafirði og er komið langleiðins á miðin suður og austur af Færeyjum. Þó kolmunninn sé feitur og gott hráefni nú segir Kristján Þorvarðarson, skipstjóri á Venusi, í viðtali á vef Brims að hann fari að rýrna fyrir komandi hrygningu.

40-45 tonn á togtímann
„Við vorum austan við Færeyjar en þangað er um 30 tíma sigling frá Vopnafirði. Það var töluverður fjöldi skipa á veiðisvæðinu en það kom á óvart að þarna voru aðeins tvö rússnesk skip. Undir venjulegum kringumstæðum væru þau um eða yfir 20 talsins. Ég veit ekki hvað veldur þessari fækkun en Rússar gerðu fullgilda samninga við Færeyinga um veiðarnar.
Það voru mjög góðir dagar hjá okkur í túrnum og við fengum upp í 550 tonn eftir 12 til 13 tíma hol. Það jafngildir um 40 til 45 tonnum á togtímann sem er mjög gott. Við náðum að fiska fyrir hámarks kælingu þannig að hráefnið verður væntanlega fyrsta flokks,“ segir Kristján en hann segir kolmunnaveiðina kærkomna á meðan beðið sé eftir því að loðna skili sér upp á grunnin við SA land.
„Við erum klárir til að hefja loðnuveiðar með skömmum fyrirvara þegar kallið kemur. Víkingur AK og Svanur RE eru á kolmunnamiðunum og geta komið með skömmum fyrirvara,“ segir Kristján.

Deila: