-->

Verð sjávarafurða hækkar nú í fyrsta sinn eftir að faraldurinn hófst

Verð íslenskra sjávarafurða mælt í erlendri mynt hækkaði um 2% á öðrum fjórðungi ársins borið saman við fjórðunginn á undan. Þetta er í fyrsta skipti síðan á fyrsta fjórðungi síðasta árs sem verð hækkar milli samliggjandi fjórðunga og því fyrsta verðhækkunin eftir að faraldurinn hófst.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans er þar segir ennfremur: „Heimsmarkaðsverð á kjöti og matvælum almennt er orðið hærra en það var áður en faraldurinn braust út. Verð á íslenskum botnfiski er hins vegar enn töluvert lægra en það var fyrir faraldur. Það sem skýrir helst þessa verðhækkun er mikil hækkun á verði uppsjávarfisks. Hún nam 11,7% frá fjórðungnum á undan og er þetta mesta hækkunin síðan á fyrsta fjórðungi 2016 en þá hækkaði verð á uppsjávarfiski um rúmlega 20%. Verð á botnfiski hækkaði einnig milli fjórðunga en mun minna, eða 0,5%. Þrátt fyrir þessa verðhækkun er verð sjávarafurða enn töluvert lægra en fyrir faraldur. Verðið nú á öðrum fjórðungi er 9,1% lægra en það var hæst áður en faraldurinn hófst, þ.e. á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Leita þarf aftur til fyrsta fjórðungs 2019 til að finna lægra verð, en verðið í dag er 0,3% hærra en þá.

Lækkunarhrinan hófst þegar faraldurinn braust út

Þessi verðlækkunarhrina sjávarafurða hófst um leið og heimsfaraldurinn, þ.e. á öðrum fjórðungi síðasta árs. Þá lækkaði verðið töluvert mikið, eða um 5,2%, og má rekja þá lækkun til þeirra aðstæðna sem komu upp vegna faraldursins, s.s. þrýstings kaupenda á verðlækkanir. Lækkunin á þeim fjórðungi var sú mesta í mælingum Hagstofunnar en tölur hennar ná aftur til ársins 2010. Hækkunin nú á öðrum fjórðungi er sú fyrsta eftir faraldur þar sem bæði verð á botnfiski og uppsjávarfiski hækkar. Sé horft til tímabilsins frá fyrsta fjórðungi síðasta árs hefur þróunin verið mjög breytileg fyrir botnfisk og uppsjávarfisk. Þannig hefur uppsjávarfiskurinn hækkað um 5,5% en botnfiskurinn hefur lækkað um 11,4%.

Heimsmarkaðsverð matvæla lækkaði verulega þegar faraldurinn braust út. Þannig lækkaði það um tæplega 7% á milli fyrsta og annars ársfjórðungs í fyrra. Það byrjaði síðan að hækka aftur á þriðja fjórðungi og var nú á öðrum fjórðungi rúmlega 25% hærra en það var áður en faraldurinn hófst. Heimsmarkaðsverð á kjöti lækkaði einnig á öðrum fjórðungi í fyrra og hélt áfram að lækka á þeim þriðja. Síðan hefur það hækkað en var á öðrum fjórðungi þessa árs 5,8% hærra en fyrir faraldur. Þrátt fyrir þessa hækkun sem varð á botnfiski frá Íslandi nú á öðrum fjórðungi er verðið á honum enn töluvert lægra en fyrir faraldur. Þannig var verðið 11,4% lægra en á fyrsta fjórðungi í fyrra. Að undanskildum fyrsta ársfjórðungi á þessu ári þarf að leita aftur til þriðja ársfjórðungs 2018 til að finna lægra verð á botnfiski en nú á öðrum fjórðungi.

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Vilja láta rannsaka hvort útgerðin svíki...

Formenn þriggja stéttafélaga sjómanna vilja að kannað verði hvort verðmæti sjávarafurða hækki óeðlilega meðan verið er að f...

thumbnail
hover

Sjávarútvegsskólinn kominn með nema eftir árs...

Gró Sjávarútvegsskóli sem starfar undir hatti UNESCO hefur fengið nema að nýju eftir árs hlé vegna Covid19. Þetta er stærsti hóp...

thumbnail
hover

Mikið um þörungablóma fyrir austan

Þörungablómi fyrir austan virðist óvenju mikill miðað við árstíma. Hafrannsóknastofnun hafa borist fregnir af blóðrauðum sjó ...