-->

Verðmætin aukast um 15 til 16 milljarða

„Ef við berum saman ráðgjöfina núna og aflamarkið í fyrra gæti verðmæti aukningarinnar í þorski, ýsu, ufsa og gullkarfa legið á bilinu 15 til 16 milljarðar króna í útflutningstekjur eins og staðan er núna. En margt getur haft áhrif á það, eins og afurðaverð og gengi,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ í samtali við kvotinn.is.

Ráðleggingar Hafrannsóknastofnunar um hæfilegan hámarksafla helstu nytjategunda voru kynntar í gær. Þar kom fram að óhætt væri að auka þorskveiðar um 19.000 tonn frá síðustu ráðgjöf, ýsuafla um 6.000 tonn, afla af ufsa um 8.000 og gullkarfa um 7.000 tonn. Heildarafli þorsks gæti þá orðið 215.000 tonn. Fara þarf aftur til ársins 2004 til að sjá meiri þorskafla, en þá veiddu Íslendingar 220.000 tonn.
„Nú er reyndar ekki verið að gefa ráðleggingar fyrir margar mikilvægar tegundir. Þar skiptir loðnan mestu máli, sem er veruleg óvissa um.  Þá á eftir að koma ráðgjöf í norsk-íslenskri síld sem er á niðurleið og makrílinn kemur í haust og fróðlegt verður að sjá hvað kemur út úr því. Ráðgjöf um kolmunna kemur líka í haust og hann er á uppleið, en vegur minna í heildinni en hinar tegundirnar. Vissulega er um verðmætaaukningu í þessum botnfisktegundum ræða, en það er ekki fyrr en í haust sem ráðgjöf kemur fyrir deilistofnana og síðan loðnuna og heildarmyndin skýrist. Þar getur verið um um miklar upphæðir að ræða.
Þarna er nánast ekkert sem kemur á óvart í þessum ráðleggingum. Þorskurinn er nánast á pari við það, sem Hafró spáði, en við erum auðvitað að taka mjög lítið af þorskinum, því viðviðunarstofninn er kominn upp í 1.200 þúsund tonn. Veiðiálagið er því mjög lítið. Reyndar kemur ráðgjöfin í íslensku síldinni svolítið á óvart. Við höfðum af því áhyggjur að afleiðingar af síldardauðanum í vetur og sýkingunni í stofninum yrðu meiri. Það er því mjög jákvætt að hægt er að auka veiðarnar á henni.
Aðspurður segist Friðrik ekki gera ráð fyrir öðru en aukningin í kvótabundnum tegundum muni skila sér í samræmi við aflahutdeild hvers og eins, enda séu í gildi lög um það. „Það fer reyndar allt of mikið í þessa svokölluðu potta og ég hef enga trú á því að það verði aukið. Miklu frekar að það verði minnkað,“ segir Friðrik J. Arngrímsson.