-->

Vestmannaeyjahöfn vel í stakk búin

Vestmannaeyjahöfn er meðal stærstu löndunar og útflutningshafna landsins en árlega er landað vel á annað hundrað þúsund tonnum af afla í höfninni. Gengi uppsjávarveiðanna hefur þó umtalsverð áhrif á þessa tölu. Andrés Þorsteinn Sigurðsson, skrifstofustjóri og yfirhafsögumaður Vestmannaeyjahafnar segir höfnina vel í stakk búna að þjóna þörfum sjávarútvegsgreinarinnar í Eyjum.
„Ég tel að staða Vestmannaeyjahafnar sé að mörgu leyti góð. Sjávarútvegurinn er og hefur verið sterkur hér í Eyjum og mikil uppbygging átt sér stað, ekki síst hjá stærstu fyrirtækjunum, Ísfélaginu og Vinnslustöðinni. Hins vegar hefur þessum rótgrónu, gömlu fjölskylduútgerðum hér fækkað en þó eru ennþá starfandi nokkur öflug slík fyrirtæki. Það má óhikað fullyrða að höfnin er okkar lífæð, enda er fiskurinn það sem allt snýst um hér. Almennt má segja að hafnarmannvirkin séu í góðu ásigkomulagi, undanfarin ár hefur verið unnið að því að endurnýja bryggjukantana og því tel ég að megi segja að eins og er sé staðan nokkuð góð,“ segir Andrés Þorsteinn.

vestmannaeyjar

Sveiflast með uppsjávarfiskinum
Magn landaðs afla í Eyjum er afar mismunandi á milli ára og segir Andrés að það ráðist að miklu leyti af því hversu vel gangi í uppsjávarveiðunum, t.d. í loðnu og makríl. Bolfiskaflinn sé ekki eins sveiflukenndur milli ára – bæði sé honum landað til vinnslu í Eyjum og einnig í gáma sem síðan eru fluttir til Evrópu.
„Vegna mikilla sveiflna í uppsjávarveiðinni er mjög breytilegt milli ára hversu miklum afla er landað hér í Vestmannaeyjum. Á síðasta ári var landaður afli hér um 137 þúsund tonn. Útflutningsafurðir frá Eyjum eru af ýmsum toga, mjöl og lýsi, ferskar afurðir, saltfiskur, þurrkaðar afurðir og frosnar afurðir. Þetta endurspeglar hversu breið flóran er í sjávarútveginum hér,“ segir Andrés.

Skemmtiferðaskipum fjölgar
Höfnin og innsiglingin í Eyjum hefur sérstakan sjarma með hinn 283ja metra háa móbergsstapa, Heimaklett, sem einskonar útvörð. Hins vegar má segja að fyrir stærstu skipin sé innsiglingin nokkuð þröng, til dæmis eiga stór skemmtiferðaskip nokkuð erfitt með að athafna sig inni í höfninni. Heimsóknum þeirra fer þó fjölgandi ár frá ári.
„Það hefur verið gríðarleg aukning í komum skemmtiferðaskipa til okkar. Fyrir nokkrum árum sóttu okkur heim kannski 8-15 skip á hverju sumri. Síðastliðið sumar hafði 31 skip viðkomu hér og það stóð til að fleiri kæmu hér við en þurftu frá að hverfa vegna óhagstæðra veðurskilyrða. Fyrir næsta sumar liggja fyrir 42 bókanir skemmtiferðaskipa sem staðfestir áframhaldandi vöxt á þessu sviði fyrir höfnina og ferðaþjónustuna hér í Eyjum. Þetta skiptir okkur að sjálfsögðu miklu máli og þetta er hrein viðbót við aðra fasta tekjupósta hafnarinnar vegna löndunar fiskafla. En það liggur fyrir að svo tíðar komur skemmtiferðaskipa kalla á aukna þjónustu af okkar hálfu við skipin. Það myndi bæta aðstöðuna verulega ef byggður yrði nýr viðlegukantur við nýja hraunið, sem myndi þýða að skemmtiferðaskipin þyrftu ekki að koma inn í höfnina. Þetta er möguleiki sem vonandi verður að veruleika innan fárra ára.“

Attachments

Comments are closed.