Viðgerð á Þúfu gekk vel

Deila:

Lokið var við viðgerð og endurbætur í umhverfislistaverkinu Þúfu um þremur mánuðum eftir að miklar skemmdir urðu á verkinu í gríðarlegu vatnsveðri sem gekk yfir suðvestanvert landið í lok febrúar sl. Að sögn Gísla Sigmarssonar, tæknistjóra HB Granda í Reykjavík, myndaðist stórt skarð í Þúfu eftir að hluti brekkunnar rann niður í vatnsveðrinu.

,,Eftir skemmdirnar á Þúfu var strax hafist handa við að byggja verkið upp á þann hátt að svona lagað gerist ekki aftur. Þar sem Þúfa er einstakt verk, gert eftir forskrift listakonunnar Ólafar Nordal, þurfti að finna leið til að gera verkið öruggt án þess að hrófla þyrfti við við efnisvali og lagi,“ segir Gísli í samtali á heimasíðu HB Granda, en til verksins voru fengnir sérfræðingar frá verkfræðistofunum Eflu og VSO auk verktakanna Stokka og steina sf. og Jarðvegs ehf.

,,Viðgerðinni var lokið fyrir sjómannadaginn og eftir því sem liðið hefur á sumarið er nokkuð ljóst að vel hefur til tekist,“ sagði Gísli Sigmarsson.

Þúfa er vinsæll áningarstaður ferðamanna sem sækja heim Reykjavík. Verkið stendur austan við Ísbjörninn á Norðurgarði, skammt vestan við innsiglinguna á Reykjavíkurhöfn.

Deila: