Viðskiptum DNB og Samherja hætt

183
Deila:

Norski bankinn DNB hefur sagt upp öllum viðskiptum sínum við Samherja. Þetta staðfesta heimildamenn tengdir bankanum við RÚV. Ástæðan er sögð aðkoma Samherja í spillingarmálum í Namibíu.

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir í samtali við fréttastofu að viðskiptum við norska bankann hafi verið hætt um áramótin. „Þetta hefur ekki truflað starfsemi Samherja á neinn hátt. Við vorum búin að vera í samskiptum við bankann í nokkurn tíma og frá því í nóvember hefur verið unnið að því að DNB yrði ekki hluti af okkar bankaviðskiptum,“ segir Björgólfur og bætir við að viðskiptin við DNB hafi verið orðin lítil þegar tengslin voru slitin. Hann segir þetta einstakt tilfelli og að viðskipti Samherja við aðra banka séu í óbreyttri mynd.

Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, segir að rannsókn norsku efnahagsbrotadeildarinnar beinist að norska bankanum en ekki Samherja.

DNB átti frumkvæðið

Björgólfur segir það ekki venju Samherja að fjalla um einstaka viðskiptavini Samherja en staðfestir að DNB hafi átt frumkvæði að því að segja upp viðskiptunum frá og með áramótum. „Það var að frumkvæði norska bankans og við höfum verið í samvinnu við hann varðandi spurningar sem þeir höfðu út af okkar viðskiptum og við vorum þá þegar að undirbúa flutning á öllum okkar viðskiptum sem þar voru. Ég vil taka það fram að það voru engin lán hjá Samherja hjá bankanum þannig að við vorum í raun búin að flytja öll viðskiptin þegar að þessi tilkynning kom.“

Þannig að bankinn hefur einfaldlega loka ykkar reikningum? „Já, þeir gerðu það í raun og hafði engin áhrif á starfsemina. Við höfðum aðrar leiðir til að framkvæma það sem var hjá DNB sem var ekki mikið.“

Greinilega leki úr bankanum

Spurður út í ástæður þess að reikningunum var lokað svarar Björgólfur: „Ég held að það liggi fyrir að bankinn er í rannsókn hjá Ökokrim í Noregi og það sé ástæðan. Það er kannski í ljósi þess að það er greinilega leki úr bankanum um það að þessum viðskiptum hafi verið sagt upp og ljóst að það hefur verið leki úr bankanum varðandi skjöl Samherja.“

Björgólfur segir þó að DNB hafi ekki alveg lokað á Samherja því DNB hafi falast eftir viðskiptum við norskt sjávarútvegsfyrirtæki sem Samherji á töluverðan hlut í. „Þannig að ristir nú ekki mjög dúpt nafnið Samherji þar.“

Engin áhrif á daglega starfsemi

Björgólfur segir um einstakt tilvik að ræða og viti hann ekki til þess að aðrir bankar hafi lokað reikningum í eigu Samherja. Fyrirtækið sé með víðtæka starfsemi í Evrópu og eigi bankareikninga víða. „Við erum ekki að fjalla um einstaka viðskiptavini Samherja. Það eina sem við segjum er að starfsemin truflaðist ekki við þetta, daglegur rekstur gekk algjörlega upp og bæði innlendir bankar og erlendir bankar hafa tekið þennan litla hlut sem DNB var með.“

Segir rannsókn Økokrim beinast að DNB

NRK greinir frá því að norska efnahagsbrotalögreglan, Økokrim, sé með ákveðnar færslur milli DNB og Samherja til rannsóknar. Björgólfur segist lítið vita um þau mál umfram það sem hann hafi lesið í fjölmiðlum. „En það er alveg ljóst að Samherji hefur boðið samvinnu við Ökokrim í því sem tengist Samherja gagnvart rannsókn bankans. En það hefur ekki komið neitt frá þeim varðandi málefni Samherja innan DNB. Ég ímynda mér að það séu einhver stærri mál sem er verið að fjalla um þar.“

Ekki vísbending um misjafnt athæfi í Namibíu

Spurður að því hvort þessar aðgerðir bankans gefi ekki í skyn að eitthvað misjafnt hafi verið að finna í starfsemi Samherja í Namibíu svarar Björgólfur: „Nei, það er ekki mitt mat. Þetta eru einfaldlega eðlilegar bankafærslur sem voru hjá DNB en eins og ég segi eru klárlega í rannsókn hjá Økokrim. En það hefur allavega ekkert komið þaðan til Samherja sem gefur neitt til kynna.“

 

Deila: