-->

Vilhelm með mestan makrílkvóta

Samherjaskipið Vilhelm Þorsteinsson EA er með langmesta úthlutun íslenskra skipa í makríl á vertíðinni, sem nú fer að hefjast. Vilhelm er með úthlutuð 10.946 tonn. Huginn VE er með næstmesta úthlutun, 7.812  og þriðja skipið er Birtingur NK, skip Síldarvinnslunnar með 7.578. Ríflega 20 skip fá úthlutað upphafskvóta, sem er meira en þúsund tonn. Leyfilegur afli hvers og eins á svo eftir að breytast með tilfærslum mili ára og á milli skipa.
Leyfilegur heildarafi íslenskra skipa nú er 123.000 tonn, sem er 15% samdráttur frá árinu áður í samræmi til tillögur Alþjóðahafrannsóknaráðsins. Árið 2012 var leyfilegur heildarafli 145.000 tonn.
Nú skiptast heimildir þannig að 3.200 tonn fara til báta sem veiða á handfæri eða línu, 6.703 tonn til skipa sem landa aflanum til vinnslu í landi, 25.976 tonn til vinnsluskipa og 87.303 tonn til skipa miðað við aflareynslu á árunum 2007 til 2009.
Sótt var um leyfi til makrílveiða í flokknum án frystingar fyrir 84 skip. Til skipta milli þeirra eru 6.703 tonn af makríl. Af þessum skip eru 64 200 brúttótonn eða stærri, og koma 98.574 kg í hlut hvers þeirra. Undir þessari stærð eru 20 skip og koma 19.715 kg í hlut hvers þeirra.
Sótt var um leyfi til makrílveiða með línu og handfærum fyrir 239 skip. Það er margföldun frá síðasta ári. Af þessum fjölda hafa verið sendir út greiðsluseðlar vegna 118 skipa, sem fá leyfi þegar leyfisgjald hefur verið greitt. Af umsækjendum eru 98 skip ekki með haffæri sem gildir 1. júlí, en þann dag má hefja makrílveiðar með línu og handfærum.  Ekki verða gefin út leyfi til þeirra fyrr en það skilyrði er uppfyllt. Þá eru 23 af þeim skipum sem sóttu um nú þegar með strandveiðileyfi og því er ekki unnt að gefa út leyfi til þeirra fyrr en 1. september.
Aflahæsta skipið á síðustu vertíð var Aðalsteinn Jónsson SU með 10.275 tonn, en hann fiskaði einnig kvóta Jóns Kjartanssonar SU, en bæði skipin eru í eigu Eskju á Eskifirði. Næsta skip var Vilhelm Þorsteinsson EA með 10.102 tonn. Af honum voru þó flutt 4.000 tonn yfir á Kristina EA, annað skip í eigu Samherja sem fiskaði 9.087 tonn í fyrra. Huginn VE var svo með 8.943 tonn. Þetta voru stórtækustu skipin í fyrra, en athygli vekur góður árangur handfærabátsins Fjólu GK sem fékk 243 tonn á handfærin.
Íslenskum skipum verður nú heimilað að stunda veiðar innan lögsögu Grænlands að fengnu leyfi til veiða frá grænlenskum yfirvöldum og samkomulagi við grænlenska útgerð um nýtingu aflaheimilda. Fái skip leyfi til makrílveiða við Grænland verður það viðbót við heimildir þeirra við Ísland. Makrílkvóti Grænlendinga í ár er 15.000 tonn. Honum er úthlutað á skip og er framsal heimilt til skipa frá öðrum löndum.