-->

Vilja 12% makrílkvótans til smábáta

Félag smábátaeigenda á Snæfellsnesi  vill umbætur á strandveiðikerfinu. Það vill að 12% leyfilegs makrílafla komi í hlut smábáta og að ýsukvótinn verði þegar aukinn um 5.000 tonn. Þetta kom fram á félagsfundi í Snæfelli í vikunni. Ályktar fundarins eru eftirfarandi:
„Snæfell skorar á sjávarútvegsráðherra að beita sér fyrir umbótum á umhverfi strandveiða þannig að veiðar verði heimilaðar 4 virka daga í viku á tímabilinu maí – ágúst.
Strandveiðar hafa komið inn sem raunhæf atvinnugrein og menningarauki fyrir hinar dreifðu byggðir.  Strandveiðar hafa þannig haslað sér völl innan samfélaganna sem líta á þær sem örugga starfsemi sem komin er til að vera, enda veiðiheimildum dreift á fjölmarga aðila.  Öryggið er ekki síst fólgið í því að það er ekki í valdi eins aðila hvort viðkomandi byggðarlag missi undirstöður sínar fyrirvaralaust.
Snæfell minnir stjórnvöld á að öflugar strandveiðar eru ein megin forsenda þess að hægt er að bjóða ferskan fisk frá Íslandi alla mánuði ársins.
Makrílveiðar hafa aukið starfsöryggi trillukarla.  Brýnt er að stjórnvöld viðurkenni að 12% leyfilegs heildarafla verði ætlað til færaveiða smábáta.  Sýnt þykir að veiðarnar skapa gríðarlega atvinnu í landi og er færaveiddur makríll eftirsótt vara.
Snæfell hafnar með öllu hugmyndum um kvótasetningu á makríl.
Grásleppuveiðar eru félagsmönnum í Snæfelli gríðarlega mikilvægar.  Komandi vertíð veldur sjómönnum áhyggjum þar sem fullkomin óvissa ríkir um markað fyrir hrognin.  Brýnt er að stjórnvöld virði samþykktir þeirra aðila sem stunda grásleppuveiðar í tilraunum þeirra að ná jafnvægi á framboð og eftirspurn grásleppuhrogna.
Fundur í Snæfelli skorar á sjávarútvegsráðherra að auka nú þegar veiðiheimildir í ýsu um 5000 tonn.
Snæfell telur brýnt að línuívilnun nái til allra dagróðrabáta.  Með auknum þorskveiðiheimildum er svigrúm til að styrkja línuveiðar dagróðrabáta enn frekar og auka þannig framboð á ferskum fiski, þ.e. fiski sem landað er sama dag og hann er veiddur.“
Á meðfylgjandi mynd eru smábátar að koma inn til löndunar í Stykkishólmi síðastliðið sumar. Ljósmynd Hjörtur Gíslason