-->

Vísir með byggðakvóta á Þingeyri frá 2000

Fiskvinnsla Vísis hf. á Þingeyri hefur frá árinu 2000 til dagsins í dag fengið 1.300 tonna byggðakvóta. Þetta kemur fram í minnisblaði Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða um áhrif áformaðrar lokunar Vísis á Þingeyri og er sagt frá þessu á fréttasíðunni bb.is
„Miðað við meðal leiguverð á þorsktonni frá árinu 2000, sem hefur verið um 170.000 kr. á tonnið, er byggðakvótinn búinn að vera rekstrarlegur stuðningur sem meta má á 11-17 milljónir kr. á ári eða á bilinu 130-190 milljónir frá árinu 2000 til dagsins í dag. Ef í upphafi hefði verið fjárfest í kvóta er stuðningurinn ígildi fjárfestinga að upphæð 150-240 milljónir króna. Íbúafjöldi á Þingeyri hefur verið tiltölulega stöðugur á undanförnum árum og hefur haldist í um það bil 265 íbúum. Öflug atvinnustarfsemi hefur skapað störf og má því segja að gagnsemi byggðakvótans birtist í tilfelli eins og Þingeyrar. En á sama tíma sést hversu viðkvæmur undirliggjandi rekstur er þar sem þörf er á byggðakvóta til að halda úti rekstri.
Starfsstöð Vísis á Þingeyri má rekja til stofnunar Fiskvinnslunnar Fjölnis. Í almennri umfjöllun um málið var töluvert rætt um aðkomu stjórnvalda og Byggðastofnunar, en í ársreikningum Byggðastofnunar kemur fram að stofnunin lagði til félagsins 100 m.kr. í hlutafé í rekstur Fjölnis sem síðar var yfirtekið algerlega af Vísi. Ef tekið er tillit til verðlags og ofangreindra upphæða um verðmæti byggðakvóta og hlutafé er núvirt, þá má gera ráð fyrir því að opinberar ívilnanir og aðgerðir hafi numið um 450-700 m.kr. frá árinu 2002.
Ljóst er af sögunni að margt hefur verið gert til þess að tryggja starfsemi á Þingeyri. Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækis eins og Vísis er því mikil enda hefur grunnur starfsstöðvarinnar á Þingeyri byggst upp á hlutafé og ívilnunum frá hinu opinbera,“ segir á heimasíðunni bb.is