Vonarstjörnur í aukinni hagsæld þjóðar

Deila:

„Á dögunum skrifaði fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson, stutta hugleiðingu í Fréttablaðið um ástand efnahagsmála. Segir að vel hafi gengið á undanförnum árum, en breytingar séu fram undan og að aðlögun „…að breyttum horfum í hagkerfinu verður ekki með öllu sársaukalaus. Við þurfum að skapa ný störf, sækja fram og halda verðmætasköpun í landinu áfram. Til þess þarf frumkvæði, bjartsýni og kraft. Það þarf réttar áherslur.“ Undir þetta má taka, það þarf að halda áfram að búa til verðmæti, þjóðinni til hagsbóta. Nefna má að til þess að viðhalda 3% hagvexti næstu 20 ár, þurfa tekjur af útflutningi frá Íslandi að aukast um 1.000 milljarða króna, eða um 50 milljarða á ári, sem gerir um 1 milljarð króna í hverri einustu viku.“

Svo segir í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, en þar segir ennfremur: „Samdráttur í ferðaþjónustu og loðnubrestur eru nefndir sem dæmi um að hagur versnandi fari. Það er litlum vafa undirorpið að stór hluti skýringarinnar liggur þarna, sérstaklega í samdrætti í ferðaþjónustu. Þegar hefðbundnir tekjupóstar dragast saman er hins vegar nauðsynlegt að „…sækja fram og halda verðmætasköpun í landinu áfram…“, eins og fjármálaráðherra bendir réttilega á. Þegar horft er yfir sviðið og gaumgæft hvar möguleikarnir gætu legið er tvennt sem hægt er að koma auga á í fljótu bragði.

Tugmilljarða tekjur tæknifyrirtækja
Hið fyrra er stóraukinn útflutningur á íslensku hug- og handverki tæknifyrirtækja sem tengjast sjávarútvegi. Samkvæmt greiningu Sjávarklasans var velta þessara fyrirtækja um 42 milljarðar króna í fyrra. Þá er aðeins sú velta tekin með í reikninginn sem tengist sjávarútvegi og fiskeldi. Velta annarra fyrirtækja í þessum geira var um 40 milljarðar króna. Hér ber að hafa í huga að vöxtur tæknifyrirtækja sem veita sjávarútvegi á Íslandi þjónustu, hefur byggst upp vegna þess að sjávarútvegsfyrirtækin hafa getað fjárfest og þróað lausnir í samstarfi við tæknifyrirtækin. Þetta samspil er svo að skila sér í tugmilljarða tekjum í þjóðarbúið. Undanfarin misseri hafa svo fiskeldisfyrirtækin bæst við og fjárfest í nýjum búnaði.

Með þetta í huga er ljóst að skynsamleg nýting auðlinda í sjónum kringum Ísland leikur hér stórt hlutverk. Hagsæld þessarar þjóðar liggur því í raun í hafinu. Þótt nýting lifandi náttúruauðlinda geti verið hvikul og óáreiðanleg, eins og nýlegt dæmi um loðnubrest sýnir, hefur tekist að viðhalda auðlindinni og hámarka afrakstur af henni. Og útflutningstekjur af sjávarútvegi hafa haldist stöðugar.

Tugmilljarða tekjur af fiskeldi
Hið síðara er fiskeldi. Þar eru góðir hlutir að gerast. Útflutningur á afurðum frá fiskeldi á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs nema um 8,6 milljörðum króna. Miðað við fyrstu fjóra mánuði ársins í fyrra er þetta aukning um 71%. Sem hlutfall af heildar útflutningsverðmæti sjávarafurða frá Íslandi eru þetta ríflega 10% og hlutfallið hefur aldrei mælst hærra. Fari svo fram sem horfir mun verðmæti útfluttra afurða frá fiskeldi nema um 25 milljörðum króna í ár. Það eru góð tíðindi þegar fréttir berast af kólnun hagkerfisins.

Styrkjum stoðirnar
Það þarf „…frumkvæði, bjartsýni og kraft…“, til þess að standa í rekstri fyrirtækja, einkum fyrirtækja sem eru að ná fótfestu hér á landi. Fiskeldisfyrirtækin eru í þeirri vegferð um þessar mundir og það má væntanlega taka undir með fjármálaráðherra að það er ekki annað hrun í vændum. En núverandi ástand færir okkur heim sanninn um það að nauðsynlegt er að fjölga stoðunum undir íslenskan útflutning, því þannig forðumst við best kollsteypur. Takist það verður þjóðarbúið miklu betur í stakk búið til þess að mæta samdrætti á einu sviði, eða jafnvel tveimur.“

 

Deila: