VSV-saltfiskur í öndvegi portúgalskrar matarhátíðar

133
Deila:

Saltfiskur frá Vinnslustöðinni er í hávegum hafður á mikilli matarhátíð sem stendur yfir í þremur héruðum Portúgals og varir til 22. nóvember. Aðstandendur hátíðarinnar, Gastronomia de Bordo, ákváðu að hafa setningarathöfnina í sölum Grupeixe, saltfiskfyrirtækis Vinnslustöðvarinnar í Portúgal – sem var auðvitað mikill heiður og viðburður. Þar mættu borgarstjórinn á staðnum, formaður borgarráðs, fleiri héraðshöfðingjar og aðrir gestir að ógleymdu fjölmiðlaliði sem gerði viðburðinum góð skil. Frá þessu er greint á heimasíðu VSV og segir þar ennfremur:

„Fyrir gestgjöfum fór Nuno Araújo, forstjóri Grupeixe, sem starfað hefur með miklum ágætum undanfarin ár í þágu VSV í Portúgal. Nuno kynnti gestunum starfsemina og þurfti ekki að kvarta yfir áhugaleysi þeirra. Jólahátíðin er nefnilega rétt handan horns og einmitt saltfiskurinn frá Íslandi er sá matur sem hæst er skrifaður og mest eftirsóttur til að bera á veisluborð jólanna um þvert og endilangt Portúgal.

Setningarathöfnin var bókstaflega römmuð inn með saltfiskstæðum og  allir viðstaddir voru grímuklæddir í sóttvarnaskyni eins og vera ber á kórónuveirutímum.

Fjöldi veitingahúsa hefur sértilboð saltfiskrétta og annarra þorskrétta á matseðlum sínum um helgar fram eftir nóvember. Bók með uppskriftum fiskrétta eftir þekktan stjörnukokk var gefin út og ýmsir viðburðir eru á dagskrá þar sem fjallað er um portúgalskar matarhefðir tengdar þorski og hvernig þær hafa mótast í tímans rás.

Evrópusambandið styrkir þennan matarmenningarviðburð.

Óhætt er að fullyrða að Grupiexe og Vinnslustöðin hafi fengið þarna fljúgandi markaðsstart í aðdraganda mikilvægasta tímabils ársins í kynningu og sölu á saltfiski.“

 

Deila: