West Seafood gjaldþrota

Deila:

Sjávarútvegsfyrirtækið West Seafood ehf var úrskurðað gjaldþrota 12. september. Yfir þrjátíu einstaklingar eiga kröfur á fyrirtækið allt að átján mánuði aftur í tímann. Fyrirtækið var upphaflega stofnað í mars 2015 og hét þá Fiskvinnsla Flateyrar. Þrjú sjávarútvegsfyrirtæki höfðu þá þegar reynt rekstur á Flateyri frá 2007 en farið í þrot samkvæmt frétt á ruv.is.

Þegar mest var störfuðu um fimmtán hjá fyrirtækinu. Sjö voru á launaskrá við gjaldþrot eftir uppsagnir fyrr á árinu. Á Flateyri eru 201 íbúar.

Finnbogi Sveinsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga, segir skuld West Seafood við 32 félagsmenn vera tíu til fjórtán milljónir.

„Þetta eru bara bein vinnulaun. Það er fyrir utan annað sem fylgir með. Við erum að safna gögnum núna til að fá heildarmyndina skýrar á blað,“ segir hann.

Í júní greip Verkalýðsfélagið jafnframt til þess að lána félagsmönnum ógreitt orlof sem West Seafood hafði ekki greitt í maí. Þá hefur Ábyrgðarsjóður launa greitt þá skuld og er hún því ekki útistandandi.

„Ég veit ekki af hverju þetta gerðist,“ segir Zaneta Gosciniak, fyrrum starfsmaður West Seafood. „Þetta er virkilega leiðinlegt. Þetta var gott starf og samstarfsfólkið var gott. Foreldrar mínir unnu þarna, bróðir minn og unnusti. Þetta var fjölskylduvinnustaður.“

Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra felast eignir fyrirtækisins aðallega í fasteignum, fiskvöru, einu skipi og vinnsluvélum. Að minnsta kosti hluti eignanna er veðsettur. Frestur til að lýsa kröfum rennur út í nóvember.

Ekki náðist í eigendur West Seafood við gerð fréttarinnar.

 

Deila: