Yður er þetta rit ætlað

Sjávarútvegstímaritið Ægir fagnar 115 ára afmæli sínu nú í haust með útgáfu glæsilegs tölublaðs, 150 blaðsíður að stærð meða afar fjölbreyttu efni.

„Í ár voru liðin 115 ár frá fyrstu útgáfu tímaritsins Ægis og er þetta 8. tölublað ársins 2020 sérstaklega tengt þeim tímamótum. Við skyggnumst um öxl í útgáfusögu blaðsins sem margir hafa komið að á þessum langa tíma en óhjákvæmilegt er að nefna hlut Fiskfélags Íslands sem stóð að útgáfunni í tæplega 90 ár. Að ráðast í útgáfu af þessu tagi árið 1905 hefur verið stórvirki þess tíma og það er sannast sagna afrek hjá öllum sem lagt hafa hönd á plóg hversu löng og samfelld útgáfusagan er orðin.

Við sem að útgáfunni stöndum í dag þökkum áskrifendum Ægis dyggan stuðning sem og fyrirtækjum sem nýta sér þennan vettvang til auglýsinga og kynninga á vörum og þjónustu. Ægir hefur alla tíð lagt áherslu á að endurspegla það sem er að gerast hverju sinni í greininni og horfa um leið fram á veginn. Eins og einn fjölmargra viðmælanda í blaðinu að þessu sinni orðar það svo skemmtilega: „Það er alltaf bjart framundan“.

Í blaðinu er rætt við fólk í störfum vítt og breitt í sjávarútvegi. Þau viðtöl endurspegla fjölbreytileika greinarinnar og starfanna en rauði þráðurinn er hversu síkvikur og spennandi þessi starfsvettvangur er. Nýsköpun og líftækni eru líka hugtök sem koma við sögu í blaðinu, sjálfvirkni, vinnslutækni, veiðitækni og þannig má lengi áfram telja. Við Íslendingar höfum fyrir löngu sýnt og sannað að í sjávarútvegi erum við stöðugt að horfa til framtíðar, sækjum fram, gerum getur á morgun en í dag og í gær. Við erum óhrædd við að breyta og bæta.

En allt byggist þetta á fiskveiðiauðlindunum við landið sem við hljótum að vera sammála um að umgangast á varfærinn hátt um leið og við nýtum þær þjóðfélaginu og landsmönnum til heilla. Sjávarútvegur hefur alltaf reynst okkur dýrmæt kjölfesta þegar á hefur reynt á þrengingartímum. Svo er nú á árinu 2020 þegar heimsfaraldur Covid-19 stendur sem hæst. Og þannig verður það líka í framtíðinni,“ segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Ægis, í ritstjórnargrein blaðsins.

Leiðarvísir og málsvari

„Þjér fiskimenn og sjómenn! Yður er þetta rit ætlað, það á að vera ykkur leiðarvísir og málsvari, það á að leiðbeina og styðja að öllu því, sem getur orðið ykkar atvinnuveg til þrifa og framfara, að öllu því, sem getur stutt að ykkar sameiginlegri velgengni; það á að vera talsmaður yðar þegar þjer eruð önnum kafnir á hafi úti og hafið ekki tíma til umsvifa; það á að upplýsa yður sem búið á útkjálkum og annesjum, þar sem auðurinn er annarsvegar, en því miður oft vanþekking og fátækt hinsvegar. Öll þau málefni, sem að einhverju leyti geta stutt að framförum í fiskveiðunum, veiðiaðferðinni, hagnýtingu, verkun o.fl. verður rækilega rætt og útlistað, hafandi fyrir augum bæði útlent og innlent, sem gefur leiðbeiningar og upplýsingar í því efni.“ Þetta skrifaði Matthías Þórðarson frá Móum, ritstjóri tímaritsins Ægis í fyrsta tölublaði tímaritsins sem kom út þann 10. júlí árið 1905.

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Fizza

Samkvæmt könnun sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi létu gera vilja margir landsmenn borða meira af fiski. En svo virðist sem fó...

thumbnail
hover

Skrýtið að þjóna til altaris

Maður vikunnar nú er fæddur Gaflari en á báðar ættir að rekja norður. Hann býr á Eskifirði en vinnur á Seyðisfirði. Hann hefu...

thumbnail
hover

Vill allt að 50.000 tonna fiskeldi...

„Fiskeldið er nú þegar einn af burðarásum atvinnulífsins og svo verður í framtíðinni, það er engin spurning. Starfsemi fiskeld...