Yfirvofandi þorskastríð við Svalbarða

200
Deila:

Hópur evrópskra útgerða hefur boðað lögsókn gegn norska ríkinu sem þeir segja að hafi „stolið“ veiðiheimildum við Svalbarða frá þeim. Þetta kemur fram hjá fréttavefnum World Fishing. Norðmenn svara þessum ásökunum fullum hálsi og hóta að taka skip, sem stunda ólöglegar veiðar, færa að landi og rétta yfir stjórnendum þeirra.

Í samtökum útgerðarfélaga við Norður-Atlantshaf, ENAFA, eru útgerðir frá Póllandi, Þýskalandi. Frakklandi, Spáni og Portúgal. Þær hafa allar stundað veiðar á Svalbarðasvæðinu í allt að hálfa öld. Formaður samtakanna, Diek Parlevliet, segir að samskiptin við norsk yfirvöld hafi til langs tíma verið jákvæð og stöðug allt þar til Bretar yfirgáfu Evrópusambandið. „Nú er þetta þorskastríð,“ segir hann.

Fiskiskip frá Evrópusambandinu og Bretlandi eru nú að stunda veiðar í norðurhöfum, sem ESB hefur úthlutað þeim, en þær heimildir eru ekki í samræmi við mat Norðmanna á því, hve miklar þær heimildir eigi að vera. Norðmenn hafa tekið mjög einarða afstöðu í málinu og hóta að taka skip sem fara yfir veiðiheimildir sem Norðmenn hafa gefið út, en þeim mörkum verður líklega náð í þessum mánuði. Á sama tíma er verið að undirbúa þingkosningar í Noregi.

„Samskiptin við Norðmenn hafa alla tíð verið góð þar til nú. Ákveðnum hundraðshluti af heildarkvóta af þorski í Barentshafi hefur verið úthlutað til ESB. En Norðmenn skáka í skjóli Brexit og segja Bretland eigi að fá minni kvóta og skera niður hlutdeild bæði Bretlands og ESB,“ segir Diek Parlevliet.

Hann segir að við eðlilegar aðstæður hefði hlutdeild Bretlands og ESB verið 32.800 tonn á þessu ári. En eftir Brexit fari 25% kvótans við Svalbarða til Bretlands, og þar skilji á milli fyrra samkomulags. Bretland hefði átt að fá 8.000 tonn og ESB 24.546 tonn. Þess í stað úthluti Norðmenn 5.500 tonnum til Breta og 17.855 tonnum til ESB. Og þar standi hnífurinn í kúnni.

Það sé engin skynsamleg útskýring á þessum samdrætti og það sé afar sérkennilegt að Norðmenn nýti sér Brexit með þessum hætti. Evrópusambandið sé ekki tilbúið til að taka þessu með þeygjandi þögninni og standi þétt að baki útgerðunum í þessu máli.

Lausn deilunnar er orðin bráð þar sem árekstrar virðast óumflýjanlegir á næstunni og ENAFA undirbýr málssókn og dregur ákvarðanir um yfirráð Norðmanna á svæðinu í efa.

Parlevliet segir að enginn skilji afstöðu Norðmanna. Þeir séu að taka til baka 10.000 tonna kvóta af þorski, sem sé hverfandi lítið miðað við 400.000 tonna þorskkvóta, sem þeir deili til hálfs með Rússum. Þeir séu að skapa áhættu á viðskiptastríði fyrir svo lítinn hluta. Norðmenn séu frábærir framleiðendur sjávarafurða, sem þeir selji til auðugustu markaðanna, sem séu innan ESB og þeir geti staðið frammi fyrir mikilli ógnun, farið málið illa fyrir þá.

Öll löndin innan ENAFA eiga sé mjög langa sögu fiskveiða við Svalbarða. Iván López framkvæmdastjóri Pesquers Ancora á Spáni segir að framtíð útgerða á Spáni, geti ráðist af útkomu deilunnar. Ein útgerð hafi þegar afturkallað nýsmíði vegna þessarar óvissu. Þetta snúist um atvinnu og lífslíkur.

„Við erum ekki að biðja um meira, aðeins að fá að halda því sem við höfum haft. Við óskum þess að ESB mæti Norðmönnum af fullri hörku eins og það gerir gagnvart eigin aðildarríkjum. Þá yrðum við sáttir. Norðmenn selja sjávarafurðir að verðmæti 241 milljarður króna inn á markaði ESB á hverju ári, en samt virðast þeir engar áhyggjur hafa,“ segir López.

Hann bætir við að einhliða ákvörðun Norðmanna um að auka hlutdeild sína úr makrílkvótanum um 53% á þessu ári, krefjist einnig aðgerða af hálfu ESB. Hluti af makrílafurðum úr veiðum Norðmanna hafi tollfrjálsan aðgang að mörkuðum ESB. Þeir séu séu viðskiptafélagar ESB, en sambandið láti þá komast upp með það sem þeim sýnist.

Norðmenn svara fullum hálsi og sjávarútvegsráðherrann Odd Emil Ingebrigtsen hefur lýst því yfir að Norðmenn grípi til aðgerða um leið og skip frá ESB veiði umfram þær heimildir, sem Norðmenn hafi gefið út.

„Norðmenn hafa ítrekað lýst því yfir að þeir hafi einir rétt til veiðistjórnunar á fiskverndarsvæðinu við Svalbarða og allar veiðar þar lúti norskum lögum,“ segir fulltrúi ráðuneytis viðskipta, iðnaðar og sjávarútvegs, Øyvinn Myge.

„Allar veiðar fiskiskipa frá ESB, sem stangast á við lög og reglugerðir Noregs, eru ólöglegar. Skip sem stunda ólöglegar veiðar innan lögsögu Noregs, verða tekin og lögsótt.“

Deila: