Ýsa á austrænan hátt

195
Deila:

Mildir austurlenski karrýréttir eru mikið lostæti og mögulegar útfærslur nær endalausar. En við hér á Fróni höfum að sjálfsögðu fisk í slíkum réttum. Við mælum með ýsu, en auðvitað má nota nánast hvaða hvítan fisk sem er. Þetta er hollur, einfaldur og bragðgóður réttur, sem getur hentað hvort sem er í fjölskylduveislu eða rómantískan kvöldverð.

Innihald:

  • 2 rif marinn hvítlaukur
  • 1 bolli kókoshnetumjólk
  • ¼ bolli matarolía
  • safi úr einni límónu
  • 1 ½  msk karrýduft
  • ¼ tsk rauðar piparflögur
  • 1 gul paprika í sneiðum
  • 1 bolli rifnar gulrætur
  • 4 vorlaukar, saxaðir
  • 800g ýsa í 4 jöfnum bitum
  • ¼ bolli basilíka, söxuð
  • Salt
  • hrísgrjón

Aðferðin:

  1. Notið góða djúpa pönnu með loki.
  2. Setjið hvítlaukinn, kókosmjólkina, olíuna, límónusafann, karrýduftið og rauðu piparflögurnar út á pönnuna og saltið eftir smekk. Hrærið þetta vel saman. Bætið síðan paprikunni, gulrótunum og vorlauknum út í og hrærið vel saman. Setjið pönnuna á lágan hita og látið krauma í 15 mínútur undir loki.
  3. Sjóðið grjónin.
  4. Takið lokið af pönnunni og raðið fiskbitunum ofan í sósuna þannig að þeir skarist ekki. Setjið lokið á á ný og látið krauma í 10 til 15 mínútur eftir þykkt fiskbitanna
  5. Gerið beð úr hrísgrjónunum á fjórum diskum, setjið einn bita af fiski ofan á grjónin á hverjum diski, jafnið sósunni yfir fiskbitana og stráið saxaðri basilíku yfir og berið fram. Með þessu má einnig hafa gott salat og nýbakað brauð.

 

Deila: