Ýsa í hoisin og engifer

214
Deila:

Ýsa er einstaklega fallegur fiskur, jafnt utan sem innan. Hún hefur lengst af verið vinsælasti matfiskur Íslendinga, fyrst þverskorin með beinum og roði, soðnum kartöflum og hamsatólg. Hún er enn lostæti þannig, en gott er að breyta til og til dæmis prufa hana á austurlenska vísu. Sé hún fersk, fæst varla betra fiskmeti. Fyrir þá sem ekki vita, er svarti bletturinn og rákin eftir henni allri, förin eftir klær kölska, þegar hann reyndi að grípa hana sér til matar. Hún slapp úr klóm hans til allrar lukku fyrir okkur hin.

Innihald:

½ bolli sojasósa

¼ bolli hrísgrjónaedik

1 ½ msk. ferskur engifer, smátt saxaður

1 ½ msk. vorlaukur, saxaður

1 msk. hunang

2 stórir hvítlauksgeirar, smátt saxaðir

¼ bolli hoisin sósa

2 ¼ chillimauk, til dæmis sambal olek

1 msk. ólívuolía

4 bitar af góðri ýsu, um 200 grömm hver

soðin hrísgrjón

Aðferð:

Hrærið saman í skál sojasósu, hrísgrjónaedik, engifer, vorlauk, hunang og hvítlauk og haldið viðstofuhita.

Hitið ofninn í 180°. Hrærið hoisin-sósuna og chilli-maukið saman í skál. Hitið olíuna á pönnu sem má fara í ofn. Setjið ýsubitana á pönnuna og steikið ýsubitana í 3 mínútur og snúið þeim við. Hellið hoisin-blöndunni jafnt yfir bitana og setjið pönnuna síðan í ofninn og bakið þar til ýsan er fullelduð eða í um 5 – 7 mínútur eftir þykkt bitanna.

Berið fiskinn fram í grunnri skál hvern og einn bita og hellið engifersósunni jafnt yfir þá. Berið fram með soðnum hrísgrjónum og fersku salati að eigin vali.

 

Deila: