1150 tonn af síld í tveimur 100 mínútna holum

180
Deila:

Margrét EA kom til Neskaupstaðar á laugardagskvöld með 1150 tonn af síld . Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Birki Hreinsson skipstjóra og spurði hvernig gengið hefði að ná í aflann.

„Það gekk eins og í sögu. Við stoppuðum í átta og hálfan klukkutíma á miðunum og fengum þessi 1150 tonn í tveimur 100 mínútna holum. Fyrra holið var 105 mínútur og hið seinna 110. Aflinn fékkst norðarlega og ofarlega á Glettinganesgrunni. Þarna var gríðarmikið af síld að sjá og engin vandræði að fá góðan afla. Síldin er líka eins og best verður á kosið. Hún er 420 grömm að meðaltali og algerlega átulaus. Þetta er eins gott hráefni til vinnslu og hugsast getur enda vorum við bara þrjá tíma á leiðinni í land og hráefnið getur vart verið mikið ferskara. Það verður búið að vinna aflann upp úr hádegi í dag,“ segir Birkir.

Farmur Margrétar er annar síldarfarmurinn sem berst til vinnslu í Neskaupstað á þessari nýbyrjuðu síldarvertíð. Börkur NK kom með fyrsta farminn sl. föstudag. Að lokinni vinnslu á síldinni úr Margréti verður fiskiðjuverið þrifið hátt og lágt og síðan mun Beitir NK væntanlega koma til löndunar að því loknu. Beitir er þegar kominn á síldarmiðin og mun haga veiðum  þannig að hráefnið verði sem ferskast þegar það kemur til vinnslu.
Ljósmynd Smári Geirsson.

 

Deila: