Opnun HUS, húss sjávarklasans í Maine
Fyrsti klasinn sem Íslenski sjávarklasinn stofnaði utan Íslands, The New England Ocean Cluster, opnar húsakynni fyrir frumkvöðla í sjávartengdum greinum í Portlandborg í Maine, hinn 18. mars nk. Hús sjávarklasans í Portland hefur fengið nafnið HUS. Húsið stendur við höfn borgarinnar og við eina af aðalgötum hennar (sjá mynd)
Með opnun þessarar nýju aðstöðu, þar sem stefnt er að því að rösklega 20-30 fyrirtæki og frumkvöðlar hafi aðstöðu, er stefnt að því að efla frumkvöðlastarf bandaríska klasans og samstarf íslenskra og bandarískra frumkvöðla sem tengjast bláa hagkerfinu.
„Íslenski sjávarklasinn sér mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem vilja hefja útflutning eða starfsemi á Nýja Englandssvæðinu, að nýta sér þessa aðstöðu. Í nágrenni við HUS eru vörugeymslur Eimskips og þá eru einnig á svæðinu bandarískir og íslenskir aðilar sem hafa reynslu af vörudreifingu innan Bandaríkjanna. Þarna geta því íslensk fyrirtæki haft aðstöðu þegar þau hyggjast stunda viðskipti eða útflutning á austurströnd Bandaríkjanna í umhverfi sem þekkir til íslensku fyrirtækjanna og þar sem þarlendir klasastarfsmenn geta aðstoðað,“ segir í frétt frá Íslenska sjávarklsanum.
Hér að neðan má sjá skipulag húsnæðisins en til leigu eru bæði litlar skrifstofueiningar og stök borð í frumkvöðlarýmum. Nánar má sjá nýlega frétt um Hus á alþjóðlega fréttavefnum Seafood Source