Bakaður þorskur með sítrónukeim og hvítlauk

Nú höfum við það einfalt en auðvitað heilnæmt og gott. Þorskurinn fær að njóta sín og rétt bakaður fellur hann í stórar, hvítar og fallegar flögur. Algjör veisla. Þetta þarf ekki að vera flókið til að vera algert lostæti.
Innihald:
800g þorskhnakkar í fjórum jöfnum bitum
½ bolli sýrður rjómi
1 tsk. Sítrónubörkur, rifinn
2 geirar hvítlaukur, smátt saxaður
1 msk. fersk steinselja, smátt söxuð
½ tsk. salt
¼ tsk. svartur pipar
Aðferð:
Forhitið ofninn í 180°
Hrærið saman sýrðan rjóma, sítrónubörkInn, hvítlaukinn, steinselju, salt og pipar. Smyrjið blöndunni á fiskstykkin og setjið þau í gott eldfast mót smurt með olíu eða smjöri.
Bakið í ofninum í 10-12 mínútur eða meira ef stykkin eru þykk.
Berið fiskinn fram á salatbeði úr spínati eða öðru grænmeti að eigin vali, sítrónusneiðum og hafið með nýjar soðnar kartöflur, sneiðar af gúrku og tómötum.