Loðnubrestur hefur mikil áhrif

124
Deila:

Sjávarútvegsráðherra segir að ef loðnubrestur verði annað árið í röð hafi það áhrif á þjóðarbúið, sjávarútvegsfyrirtæki og þau samfélög sem þau starfa innan. Hann segir útilokað að sjávarútvegurinn taki þátt í að fjármagna rannsóknir á lífríki sjávar. Nóg sé um gjöld á greinina og skrítið að nefna fleiri. Frá þessu er greint á visir.is

Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson kom úr tólf daga leiðangri ásamt fjórum öðrum skipum í gær þar sem leitað var að loðnu. Birkir Bárðarson leiðangursstjóri sagði að á sínum ferli hefði hann aldrei fundið svo lítið magn loðnu og í þessum túr.

Febrúarleiðangurinn sé eftir og því eigi ekki að gefa upp alla von en útlitið sé ekki bjart um að mælt verði með loðnuveiðum í ár. Það væri þá annað árið í röð sem loðnubrestur verður hér. Kristján Þór Júlíusson er sjávarútvegsráðherra.

„Ef að þetta gengur eftir svona ég ítreka það að við eigum febrúarleiðangurinn en ef þetta verður svona þá hefur þetta áhrif á þjóðarbúið og fyrirtæki og samfélög sem að sem þau starfa innan.“

Aðspurður um hvort að stjórnvöld myndu grípa inn í og aðstoða samfélög sem yrðu mögulega fyrir áföllum ef það yrði loðnubrestur segir Kristján:

„Það er allt til umræðu í þeim efnum en umræðan hefur ekki náð þangað því leit ekki lokið en fordæmi fyrir inngripi stjórnvalda þegar áföll verða í atvinnulífinu síðasta inngrip er samfélagið á Suðurnesjum þegar flugfélagið Wow fór í gjaldþrot.“

Fram kom í fréttum í gær að mikilvægt væri að rannsaka mun betur hvað væri að gerast í sjónum kringum Ísland vegna loftslagsbreytinga. Kristján segir að ríkisstjórnin hafi sett á annað hundrað milljónir í loðnurannsóknir hjá Hafrannsóknarstofnun og þeir fjármunir eigi að nýtast í meiri rannsóknir.

Í samtali fréttastofu við vísindamenn hafa þeir bent á að Norðmenn hafi sett gjald á sjávarútvegsfyrirtæki þar um að þau taki þátt í að greiða fyrir rannsóknir á hafinu og lífríki sjávar. Kristján Þór segir útilokað að það yrði gert hér á landi.

 

Deila: