Polar Pelagic skákhátíðin í Tasiilaq í undirbúningi

101
Deila:

Síðustu ár hefur Polar Pelagic, hlutdeildarfélag Síldarvinnslunnar á Grænlandi, styrkt skákfélagið Hrókinn til að halda skákhátíð fyrir börn í Tasiilaq á Austur- Grænlandi. Hátíðin hefur unnið sér fastan sess í mannlífinu á staðnum og er ávallt mikið tilhlökkunarefni fyrir börnin. Útgerðarfélagið Polar Pelagic á og rekur uppsjávarskipið Polar Amaroq og á það einmitt heimahöfn í Tasiilaq. Allt samstarf um rekstur skipsins hefur gengið afar vel og öll samskipti við grænlenska meðeigendur verið hin ánægjulegustu. Svo segir í færslu á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Nú er hafinn undirbúningur fyrir skákhátíðina 2020 og verður hún jafnframt minningarhátíð um Gerdu Vilhelm, en Gerda var máttarstólpi barnanna í Tasiilaq þar sem hún rak bókabúð og kaffihús sem jafnframt var helsti griðastaður allra barna í bænum. Tasiiilaq komst í heimsfréttirnar á síðasta ári þegar danska sjónvarpið sýndi þátt sem bar heitið „Bærinn þar sem börnin hverfa.“ Í þættinum komu fram sláandi upplýsingar um félagslegt ástand á austurströnd Grænlands en Tasiilaq er einmitt höfuðstaður þess landshluta.

Skákfélagið Hrókurinn hefur ávallt haft gleðina að leiðarljósi í starfi sínu á Grænlandi og hefur reynt eftir mætti að stuðla að auknum samskiptum Íslendinga og Grænlendinga á sem flestum sviðum. Þúsundir barna á Grænlandi hafa notið skákkennslu á vegum félagsins og fengið taflsett að gjöf, en í ferðum um landið hefur Hrókurinn tekið með sér tónlistarmenn, handverksfólk, sirkuslistamenn og fleiri sem hafa átt möguleika á að gleðja börnin. Hrókurinn hélt fyrsta alþjóðlega skákmótið í sögu Grænlands í Qaqortoq árið 2003 og á síðasta ári fóru Hróksliðar níu sinnum til Grænlands og þar voru haldnar tvær hátíðir undir merkjum Polar Pelagic. Öll grunnskólabörn í bæjunum sem voru heimsóttir tóku þátt í fjörinu og skein gleði úr hverju andliti.

„Það er svo sannarlega gleðiefni fyrir Síldarvinnsluna að koma að jafn þörfu og jákvæðu verkefni sem skákhátíðin í Tasiilaq er. Öll samskipti við Grænlendinga í tengslum við útgerð Polar Amaroq hafa verið góð og kynni af grænlenskum meðeigendum og Grænlendingum í áhöfn skipsins verið ánægjuleg,“ segir í færslunni.

 

Deila: