Alinn upp í fiskhúsi

116
Deila:

Maður vikunnar var ungur alinn upp í fiskhúsi, en byrjaði 15 ára á sjó upp á hálfan hlut. Hann varð síðar skipstjóri og útgerðarmaður og Alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn. Hann er kominn í útgerðina aftur og tók nýlega ásamt systkinum sínum við nýsmíðum línubát. Páli Jónssyni GK.  Báturinn ber nafn afa þeirra systkina. Eftirminnilegast samstarfsmaður hans er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Nafn?

Páll Jóhann Pálsson.

Hvaðan ertu?

Úr Grindavík.

Fjölskylduhagir?

Giftur Guðmundu Kristjánsdóttur. Við eigum fimm börn og 13 barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Titlaður í dag sem smábátaforingi hjá Vísi hf. sem ég er eigandi að ásamt fimm systkinum mínum og fjölskyldum.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Erfitt að tímasetja nákvæmlega hvenær ég byrjaði að vinna í fiski því ég var alinn upp í fiskhúsi en var svo 15 ára þegar ég fékk pláss á Arnfirðingi upp á hálfan hlut en hann hafði verið aflahæstur þá vertíðina.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það skemmtilega við sjávarútveginn er að þar er þróunin svo ör. Það er alla daga verið að leitast við að auka gæði afurða, auka nýtingu og létta störfin bæði til sjós og lands. Mér er hugsað til þess hvað saltskóflurnar voru þungar, nú finnst varla skófla í salthúsum, nú sjá róbótar um að skera og setja fiskinn í kassa. Nýsköpun á hverjum degi í sjávarútveginum.   Erfiðast er aflaleysi og reiðileysi, það getur tekið á taugarnar og svo auðvitað langar fjarverur frá fjölskyldunni sem fylgir oft sjómenskunni.   

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það skrítnasta sem ég hef lent í er þegar ég var skipstjóri á Sighvati GK og var að leggja net á Reykjanesgrunni í fullmiklum suðvestan kalda.  Þá endaði seinni drekinn efst upp í afturmastri og var þar kirfilega fastur.  

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Eftirminnilegasti vinnufélagi minn er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.   

Hver eru áhugamál þín?

Áhugamálin mín eru hestamennska og fiskveiðar.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Uppáhaldsmaturinn er svið með kartöflumús og rófustöppu.

Hvert færir þú í draumafríið?

Draumafríið er hestaferð á Löngufjörur.

Línubáturinn Páll Jónsson kemur heim 21. janúar síðastliðinn. Fyrsti nýbyggði línubátur Íslendinga í áraraðir. Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.

 

 

Deila: