Félag makrílveiðimanna stefnir íslenska ríkinu

114
Deila:

Félag makrílveiðimanna hefur stefnt íslenska ríkinu vegna kvótasetningar á makríl vorið 2019.
„Við kvótasetninguna töpuðu smærri bátar um helming af sínum kvóta til stóru
uppsjávarskipanna. Sá kvóti sem eftir er skilinn hjá minni útgerðunum hefur einnig
takmarkaðri réttindi til framsals en kvóti stærri skipanna. Einnig var sett inn ákvæði sem leyfir
ráðherra sjávarútvegsmála að taka af smærri bátum kvótann á hverju ári án endurgjalds og
færa hann til stærri skipa.“ Svo segir í frétt frá Félagi makrílveiðimanna og segir þar ennfremur:

Kvóti færður frá smáum útgerðum til þeirra stærstu með sérvalinni aðferð

Grundvöllur stefnunnar er sá að sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp sem miðaði við
rúmlega þrefalt lengri aflareynslutíma enn gildandi lög um veiðar á deilistofnum kveða á um.
Þar sem stærstu útgerðirnar stóðu einar að þessum veiðum fyrstu árin er grundvöllur
frumvarpsins þeim mjög hagstæður. Lög um veiðar úr deilistofnum gera ráð fyrir að kvóta sé
úthlutað miðað við bestu 3 ár af undanliðnum 6 árum, en frumvarp sjávarútvegsráðherra tekur
mið af aflareynslu bestu 10 ára af undanliðnum 11. Undirliggjandi markmið með þessum
lögum, að mati stefnanda, var beinlínis að auka hlut stærri uppsjávarútgerða í kvótanum með
því að handvelja þau viðmiðunarár sem þjónuðu því markmiði, fremur en því almenna
sjónarmiði sem verið hefur við lýði í lögum allt aftur til ársins 1983 að miða við stuttan
aflareynslutíma. Ráðherra virðist annarsvegar hafa verið að bregðast við dómi hæstaréttar um
að framkvæmd veiðistjórnunar stjórnvalda hafi ekki staðist lög frá 2011 og hinsvegar að ríkið
ætti yfir höfði sér skaðabætur vegna þessara misgjörða. Með nýju lögunum eru minni útgerðir
látnar bera þunga þessara misgjörða ríkisins sem er ósanngjarnt og mögulega ekki lögmætt
markmið lagasetningar almennt. Þó svo að aflareynslutímabilið gildi jafnt fyrir alla sem
stundað hafi veiðarnar, og virðist því við fyrstu sýn vera almenn ráðstöfun, þá telur stefnandi
að valið á aflareynslutímabilinu sem slíkt, sé óheimil mismunun þar sem markmiðið er að hygla
stórútgerðum á kostnað þeirra smærri.

Ráðherra með örlög smærri útgerða í hendi sér

Auk þessa er nýlunda að ráðherra hafi heimild til að taka heimildir útgerða af þeim innan
fiskveiðiársins telji hann veiðar ekki þróast eftir hans geðþótta. Lögin eru því fyrir margar sakir
án fordæma og staða smærri útgerða og skipa mun verri enn áður. Félag makrílveiðimanna
reyndi ítrekað að vara við veikum grundvelli laganna og afleiðingar þeirra við meðferð
frumvarpsins fyrir þinginu, en án árangurs. Varð frumvarpið að lögum án nægilegrar umræðu
í skjóli umræðu um innflutning á hráu kjöti og orkupakka 3. Félagið hefur því fundið sig knúið
til að láta á lögmæti löggjafarinnar reyna.“
Undir fréttina rita Unnsteinn Þráinsson formaður félagsins og Ásmundur Skeggjason, talsmaður þess.

Deila: