Aukin áhersla á umhverfismál og samfélagsábyrgð

82
Deila:

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa að undanförnu lagt aukna áherslu á umhverfismál og samfélagsábyrgð. Til marks um þetta var Hildur Hauksdóttir ráðin til samtakanna í októbermánuði sl. sem sérfræðingur í umhverfismálum. Hildur lauk  BS-prófi í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MBA-prófi að auki frá Griffith háskólanum í Ástralíu. Áður en hún hóf störf hjá SFS starfaði hún að umhverfis- og markaðsmálum hjá HB Granda sem nú nefnist Brim.

Sl. miðvikudag kom Hildur til Neskaupstaðar í þeim tilgangi að halda fund með fulltrúum sjávarútvegsfyrirtækja eystra um umhverfismál og samfélagsábyrgð. Til fundarins komu yfir 20 fulltrúar frá Síldarvinnslunni ,Eskju og Loðnuvinnslunni og að mati fundarmanna var umfjöllunarefnið bæði áhugavert og gagnlegt. Í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar sagði Hildur að fundurinn hefði heppnast vel.

„Eitt af verkefnum SFS þessa dagana er að vinna að stefnumótun í umhverfismálum með aðildarfyrirtækjum. Á því sviði standa öll fyrirtækin frammi fyrir sambærilegum áskorunum og skynsamlegt að víðtæk samvinna sé höfð um stefnumótunina. Á fundinum var farið yfir stöðu umhverfismála hjá fyrirtækjunum eystra og reyndar einnig um stöðu umhverfismála almennt, bæði hér á landi og á heimsvísu. Við í sjávarútvegi höfum til dæmis náð góðum árangri á sviði loftslagsmála en þó eru mörg tækifæri til að gera betur. Í þessu sambandi fjölluðum við um hvað sjávarútvegsfyrirtækin eystra geta gert betur. Eins var fjallað sérstaklega um sorpmál á fundinum og rætt hvernig skynsamlegt væri að auka samvinnu á því sviði. Fyrir utan hin augljósu umhverfisverkefni var fjallað um samfélagsábyrgð sjávarútvegsfyrirtækjanna.

Þegar rætt er um samfélagsábyrgð er lögð áhersla á þrjár meginstoðir. Í fyrsta lagi umhverfismál, í öðru lagi efnahagslega þætti og í þriðja lagi samfélagsmál. Nú er sett krafa á fyrirtæki um gagnsæi og upplýsingagjöf og í því sambandi var rætt um svonefnda samfélagsskýrslu sem veitir þá upplýsingar um bæði fjárhagslega þætti og aðra þætti sem tengjast umhverfi og samfélagi. Á fundinum var rætt um gerð samfélagsskýrsla og hvernig hugsanlegt væri að innleiða útgáfu þeirra. Á þessu sést að viðfangsefni fundarins eystra var víðtækt og mér fannst fundurinn einkar ánægjulegur,“ segir Hildur.

 

Deila: