Loðnan laus á kostunum

124
Deila:

Þessa dagana er mikið rætt um blessaða loðnuna og margir bíða með öndina í hálsinum eftir að hún finnist. Fyrsti maðurinn hér á landi til að fjalla um loðnuna með vísindalegum hætti var án efa Bjarni Sæmundsson náttúrufræðingur. Bjarni var brautryðjandi á sviði rannsókna á lífríki sjávar og hóf rannsóknir sínar fyrir aldamótin 1900. Fiskirannsóknir sínar dró hann síðan saman og birti í bókinni Fiskarnir sem út kom árið 1926. Um þetta er fjallað á heimasíðu  Síldarvinnslunnar og vitnað orðrétt í umfjöllun Bjarna um loðnuna í bókinni:

Hrygningin fer fram á vorin og fram eftir sumrinu, og þegar að henni líður, leitar loðnan inn að löndum, oft afar mikil mergð, í þéttum torfum, sem ná yfir löng svæði, jafnvel tugi kílómetra, og má þá oft óbeinlínis sjá til ferða hennar í fjarlægð, af fuglagerjunum og hvalablæstrinum… Gengur hún oft mjög nærri landi, einkum í aflandsvindi, alveg upp í fjörur og inn í árósa og lón; en hún er yfirleitt mjög „laus á kostunum“ og óviss í öllum göngum sínum; sum ár er mergð af henni en önnur sést hún ekki á sama staðnum; stundum er hún spök og dvelur lengi (t.d. í Hornafirði á veturna), en stundum verður aðeins vart við hana nokkura daga og ræður þar sennilega um bæði hiti í sjó, veður og fæða.

Í bók Bjarna er einnig fjallað um nafnið á loðnunni og útskýrir hann tilkomu þess með eftirfarandi hætti:

Nafn sitt dregur loðnan af því, að hreistur hennar er smágert, þunnt og laust, og á hængnum eru hreisturblöðin í nokkrum röðum ofan við rákina, ílöng og hin lengstu dregin út í alllanga totu, svo að úr þeim verður loðin rák eftir endilangri hlið fisksins. Algengasta nafnið á fiskinum er loðna.

Í skrifum sínum upplýsir Bjarni að fyrir norðan séu einnig eftirfarandi nöfn notuð: Loðsíli, vorsíli, loðka, loðsíld og kampasíld. Í Austur-Skaftafellssýslu segir hann að hrygnan sé nefnd barsíli en í Vestmannaeyjum sé hún nefnd hrognasíli eða hrognaseiði. Þá greinir hann frá því að á Akranesi sé hængurinn nefndur hæringur.

 

Deila: