Tryggja sig gegn mögulegum áföllum í sjókvíaeldi

216
Deila:

Ákveðið hefur verið að flytja 5.000 tonna fiskeldisstöð Landeldis við Þorlákshöfn nokkru vestar en áður var fyrirhugað. Frummatsskýrslu hefur verið skilað til Skipulagsstofnunar og verkefnið kynnt íbúum. Fjármögnun hefur gengið vel og og farið er að huga að framkvæmdum við seiðaeldisstöð.

„Við færðum verkefnið aðeins vestur eftir, rétt út fyrir Þorlákshöfn á stærri lóð, þannig að við erum með lóð sem er liðlega 18 hektarar. Í kjölfarið þurfum við að setja inn aðeins breytingar vegna umhverfismatsins hjá okkur. Nú er staðan þannig að við erum með frummats skýrsluna í auglýsingaferli og höfum þar átt í mjög góðu samstarfi við Skipulagsstofnun. Svæðið sem slíkt hefur svolítið önnur einkenni en svæðið sem við vorum áður með. Það er töluvert stærra og það er ekkert í kringum það heldur, en hinum megin vorum við í „holunni“ milli tveggja annarra eldisstöðva og svolítið  bundnir af þeirri nálægð. Núna höfum við töluvert frjálsari hendur með skipulagningu verkefnisins áfram,“ segir Ingólfur Snorrason, einn forvígismanna Landeldis.

Landeldi, staðsetning við Laxabrautlaxabraut rétt vestan Þorlákshafnar.

„Þetta er þróunarverkefni og við höfum verið að fjármagna okkur í rauntíma og það hefur gengið ágætlega eftir. Við erum á áætlun og höfum tekið nokkur skerf í áttina að seyðastöð og erum vel á veg komnir þar, þannig að við reiknum með því að árið 2020 verði árið sem við förum í gegnum það sem við köllum leyfasíu, að klára það að fá leyfi fyrir því sem við erum að fara að gera og hefja framkvæmdaferlið.

Ingólfur Snorrason

Við vorum með frummatsskýrsluna í íbúakynningu í Þorlákshöfn í síðustu viku og það gekk mjög vel. Skýrslan er aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Við erum ennþá að leggja sömu áherslu á að verkefnið skilji eftir sig eins grunnt vistspor og hugsast getur. Við erum enn jafn hrifnir af hugmyndinni um landeldi á laxi og teljum það eiga mjög bjarta framtíð fyrir sér. Við teljum að fari fram sem horfir geti landeldi skilað afurð sem tryggir mikil gæði og verðöryggi,“ segir Ingólfur.

Það er talið að það sé meiri kostnaður við laxeldi á landi en í sjó. Þess vegna sé afkoma lægri í slíkum verkefnum.

„Við erum samt mjög meðvitaðir um að eldisaðferðin sem slík ætti að veita nokkuð trygga framleiðslu. Með því að vera með landeldi reynum við að tryggja okkur gegn þeim áföllum sem hugsanlega geta orðið í sjókvíaeldi. Við erum lausir við laxalús, við erum lausir  við veðuráhrif, hitastig og slíkt. Þess vegna getur landeldið skilað jafnari afkomu, ekki hversu hár hagnaðurinn geti orðið hverju sinni, heldur líka að hægt sé að ganga út frá því að við séum með rekstrarskilyrði sem eru stöðug á þessu ári,  á næsta ári og líka eftir 10 ár og meðal annars þess vegna sé landeldi á laxi fýsilegur kostur,“ segir Ingólfur Snorrason.

Viðtalið birtist einnig í fyrsta tölublaði þessa árs af Sóknarfæri. Blaðið er gefið út af Ritformi og er dreift á öll fyrirtæki á landinu.

Deila: