Fagmennska og skilningur á þörfum einstaklingsins

96
Deila:

„Innan veggja Fiskistofu ríkir jákvæðni, fagmennska og skilningur á hinum ýmsu þörfum einstaklingsins bæði sem starfsmanns og sem persónu sem á sér líf utan vinnustaðarins.“ Þetta er meðal niðurstaðna lokaverkefnis Drífu Hrannar Stefánsdóttur við HÍ, um starfsemi Fiskistofu eftir flutning hennar til Akureyrar. Frá þessu lokaverkefni er greint á heimasíðu Fiskistofu:

Í nýlegu lokaverkefni sem gert var við Háskóla Íslands var fjallað um vegferð Fiskistofu eftir flutning höfuðstöðva frá Hafnarfirði til Akureyrar. Markmiðið með rannsókninni var að skoða hvaða áherslur stjórnendur Fiskistofu höfðu eftir flutning á höfuðstöðvum og hvernig upplifun starfsmanna endurspeglist í þeim áherslum. Að auki var skoðað hvort upplifun starfsmanna væri í takt við niðurstöður árlegra kannana SFR um Stofnun ársins og hvort gætti áhrifa frá breytingum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þær breyttu aðstæður sem stofnunin stóð frammi fyrir hafi kallað á breytta starfshætti meðal stjórnenda Fiskistofu þar sem velferð starfsmanna var höfð í fyrirrúmi samhliða uppbyggingu á árangursríkri vinnustaðamenningu. Stjórnendur lögðu meðal annars sérstaka áherslu á virka hlustun, upplýsingamiðlun og uppbyggingu trausts. Niðurstöður rannsóknarinnar eru í takt við uppgang Fiskistofu í könnun SFR um Stofnun ársins á árunum 2015 – 2018.

Rannsóknin er lokaritgerð Drífu Hrannar Stefánsdóttur til MS-gráðu í mannauðsstjórnun. Um er að ræða eigindlega rannsókn sem byggir á ítarlegum viðtölum við hóp stjórnenda og starfsmanna Fiskistofu.  Viðmælendur sem teljast til nýrri starfsmanna og staðsettir eru á Akureyri töluðu um að flutningurinn hefði veitt þeim gullið tækifæri til að starfa við sitt fag á heimaslóðum.

Í lokaorðum ritgerðarinnar kemur fram að rannsakanda finnst faglegt og flott starf stjórnenda og starfsfólks Fiskistofu standa upp úr í rannsóknarferlinu. Innan veggja Fiskistofu ríki jákvæðni, fagmennska og skilningur á hinum ýmsu þörfum einstaklingsins bæði sem starfsmanns og sem persónu sem á sér líf utan vinnustaðarins.

Þá segist rannsakandinn taka undir að fleiri en Fiskistofa geti dregið lærdóm af þeim ólgusjó sem stofnunin gekk í gegnum í fyrstu.  Mikilvægt sé að eyða út allri óvissu strax í upphafi og að skipulagning jafn viðamikilla breytinga þurfi að vera betri frá byrjun og að sú skipulagning hefði þurft að koma frá ráðuneytinu.

Hér má finna rannsóknina í heild sinni

 

Deila: