Bleikja Wellington

Fiskeldi á Íslandi vex stöðugt fiskur um hrygg. Laxeldi í sjó á Vestfjörðum og Austfjörðum er að gjörbylta atvinnu- og búsetumöguleikum á þeim stöðum, þar sem það er stundað og skilar miklum tekjum og gjaldeyri í þjóðarbúið að auki. Ekki fer á milli mála að fiskeldið er að skjóta frekari stoðum undir efnahag landsins og styrkja búsetu í dreifðari byggðum landsins.
Fyrir utan laxinn hafa Íslendingar alið bleikju til útflutnings um langt skeið. Ísland er stærsti framleiðandi heims á bleikju úr eldi og er Samherji fiskeldi stærsti einstaki framleiðandi á bleikju í heiminum. Því bjóðum við upp á uppskrift að bleikju að þessu sinni.
Innihald:
- 800g bleikjuflök í fjórum jöfnum stykkjum, roð- og beinlaus
- salt og sítrónupipar
- 2 msk. smjör
- 3 geirar af hvítlauk, maukaðir
- 1 vorlaukur, saxaður
- 1 dl hvítvín
- 100g rjómaostur
- 150g ferskt spínat
- 2 msk. brauðmylsna
- ¼ bolli rifinn parmesan ostur
- 1 pakkning af smjördegi, um það bil ½ kíló
- 1 egg
Aðferð:
Kryddið bleikjuna með salti og sítrónupipar.
Hitið smjör á pönnu og mýkið hvítlaukinn og vorlaukinn á henni á miðlungshita.
Hækkið hitann og bætið hvítvíninu út á. Látið það krauma í 5 mínútur og bætið síðan rjómaostinum út á og látið krauma í 1 mínútu.
Bætið loks spínatinu, brauðmylsnunni og parmesan ostinum út á og látið malla þar til spínatið er orðið mjúkt.
Takið smjördeigið og fletjið út í hæfilega stærð fyrir bleikjubitana fjóra.
Leggið bleikjubitana ofan á deigið og gætið þess að það sé nógu stórt til að hægt sé að loka „pakkanum“
Deilið spínatblöndunni í fernt og smyrjið ofan á hvern bita fyrir sig. Penslið eggjarauðu á brúnir deigsins og lokið „pakkanum“ með gaffli. Leggið pakkana á bökunarpappír í ofnskúffu með samskeytin niður. Skerið munstur í deigið að ofan og penslið með eggjarauðunni.
Bakið bleikjuna í 25 til 30 mínútur við 180°C eða þar til deigið er orðið fallega gullið.
Berið fram með fersku salati að eigin vali, hrísgrjónum og grænmetis- eða hvítlaukssósu.