Vinna 16 til 18 tonn af bleikju á dag

423
Deila:

Bleikjuvinnsla Samherja í Sandgerði er afar tæknivædd, er þar eru unnin í kringum 16-18 tonn af bleikju á dag. Samherji fiskeldi er stærsti framleiðandi á bleikju í heiminum með um 3.800 tonn árlega. Það er tæpur helmingur allrar eldisbleikju sem framleidd og unnin er í heiminum.

Stutt ferli frá slátrun að pökkun

„Bleikjan er alin í eldisstöðvum á Stað  Grindavík og Vatnsleysu upp í  ca 1.400 grömm og þá er hún  tilbúinn til slátrunar. Við erum að slátra um 80- 85 tonnum á viku. Bleikjan er flutt lifandi í tankbílum frá eldisstöðvunum og við erum alltaf með einn farm inni í húsi yfir nótt, svo hægt sé að hefja slátrun klukkan sex. Bleikjunni er dælt lifandi inn á kerfið hjá okkur. Hún fer í gegn um „stunner“ og í framhaldinu  blóðgar  róbóti hana. Þaðan fer hún í blæðingu og kælingu strax þar á eftir. Kælingin viðhelst svo allt vinnsluferlið til að varðveita gæðin og ferskleikann eins og unnt er.  Fiskurinn fer úr kæliskrúfunni í kælitanka og þaðan beint inn í flökun og slægingu. Þar er ferlið stutt   og beint inn á kæli því flökin eru í litlum 25 kílóa bökkum. Við leggjum mikla áherslu á kælinguna, en fiskurinn er svona tvo til tvo og hálfan tíma af fara í gegnum kerfið og heldur kælingu allan tímann,“ segir Bergþóra Gísladóttir vinnslustjóri Samherja fiskeldis í Sandgerði.

Bergþóra Gísladóttir vinnslustjóri Samherja fiskeldis í Sandgerði segir vinnsluhúsið afar tæknivætt og henta vel fyrir vinnsluna.

Ferskt og lausfryst á ýmsa vegu

„Við setjum inn í Innova krefið  á morgnana hvað við viljum fá  í snyrtingu og pökkun samkvæmt fyrirliggjandi pöntunum og fer fiskurinn þá inn á mismunandi snyrtilínur eftir því hvað við á. Þetta er stutt ferli því fiskurinn kemur í  bökkunum inn á línuna þar sem hann fer í gegnum snyrtingu, beinhreinsun og loka eftirlit. Þá er honum pakkað í kassa, sem fara merktir inn á millikæli, þar til þeir fara á bíl upp á flugvöll.

Við erum einnig að lausfrysta heilan fisk, flök og bita, pakka í lofttæmdar umbúðir og svo framvegis, fer eftir óskum markaðarins á hverjum tíma. Það sem er unnið að morgni er yfirleitt að fara út úr húsi klukkan 12 á hádegi, því flugin standa þannig af sér að við þurfum að vera búin að skila af okkur milli tólf og eitt.  Ferski heili  fiskurinn fer því alltaf samdægurs úr húsi,“ segir Bergþóra.

Mest til Bandaríkjanna

Stærsti markaðurinn er Bandaríkin, en einnig er bleikjan seld inn á Evrópu eins og Finnland, Svíþjóð og Þýskaland. Í Bandaríkjunum erum við að selja bæði ferskt og frosið inn  Whole Foods búðirnar, sem eru vandaðar matvælaverslanir þar vestra. Í Evrópu fer bleikjan beint til kaupenda, þar eru engir milliliðir. „Whole Foods hafa verið að taka af okkur í nokkuð mörg ár og gríðarlega gott að geta selt inn á svo flottan markað. Í Evrópu dreifist bleikjan inn á veitingahús og verslanir. Við höfum líka verið að selja ferska bleikju til Japans og frysta bleikju til Kína. Bleikjan okkar fer því ansi víða,“ segir Bergþóra.

Lausfrystirinn í fyrirtækinu er mjög hraðvirkur og er flökin bara um 12 mínútur að fara í gegnum hann.

Stærsti framleiðandi í heimi

Ársframleiðslan af bleikju hjá Samherja fiskeldi er um 3.800 tonn og það þýðir að Samherji er stærsti bleikjuframleiðandi í heiminum. Ísland er stærsta framleiðslulandið en heimsmarkaðurinn er í kringum 7.000 tonn. Markaðirnir eru að mestu í Norðanverðri Evrópu og Ameríku þar sem fiskurinn er einnig þekktur í náttúrulegu umhverfi. Bergþóra segir að tekið hafi töluverðan tíma að markaðssetja bleikjuna, því hún  hafi verið lítt þekkt þegar þau hófu framleiðslu, Því hafi mikil vinna farið í kynningu og markaðssetningu.

Bleikjan hefur mikla sérstöðu því hún er svo ólík flestum öðrum fisktegundum. Holdið er fíngert og fallega rautt og bragðið svolítið vilt og sérstakt, gríðarlega bragðgóður fiskur.

Mjög tæknivætt hús

Vinnslan var flutt úr Grindavík til Sandgerðis fyrir tveimur árum og er í húsi sem áður var í eigu Marmetis. „Húsnæðið í Grindavík var orðið lítið og erfitt og þetta hús stóð eiginlega og beið eftir okkur með öflugan lausfrysti, enda byggt sem frystihús. Við þurftum auðvitað að skipta út ýmsum tólum og tækjum en húsnæðið er að nýtast okkur mjög vel,“ segir Bergþóra.

Í vinnslunni í Sandgerði vinna um 19 manns og er vinnudagurinn átta tímar og hefst klukkan átta á morgnana. Einn maður mætir þó klukkan sex til að hefja slátrum  þannig að allt er klárt fyrir vinnsluna þegar mannskapurinn kemur klukkan átta. Þá er komið í öll „bufferkör“ og hægt að byrja að slægja og flaka. „Sláturrýmið er að virka gríðarlega vel, þar er einn starfsmaður sem hefur umsjón með slátrun og flokkun. Vinnslan er mjög tæknivædd, við erum með fjóra róbóta  sem eru til þess hugsaðir  að hlífa fólkinu okkar við erfiðustu  störfunum, eins og að stafla kössum og burðast með hlutina fram og til baka. Við erum með róbót í blóðgun, róbóta sem staflar öllum kössum á bretti,  og róbóta í flokkun,“ segir Bergþóra Gísladóttir.

Þessi róbóti er algjör vinnuþjarkur og mjög fjölhæfur og vinnur sín flóknu störf í einrúmi.

Hann mætir alltaf

Einn róbótanna er staðsettur inn á afurðakæli. Hann byrjar daginn á því að renna tómum kössum inn á línuna til flokkarans. Þegar flökunarvélarnar fara af stað og flokkarinn fer að setja í  flök í bakka, tekur hann þá bakka og raðar þeim í stæður inn á  kæli eftir stærðarflokkun. Þær stæður eru inni yfir nótt og eru unnar daginn eftir. Þá raðar hann bökkunum inn á snyrtilínur  eins og tölvukerfið segir til um, frá snyrtilínu fer bakkinn í gegn um þvottavél  aftur inn á afurðarkæli þar sem sem róbótinn tekur á móti þeim hreinum og  gengur frá þeim á rétta staði.

Eldisstöð Samherja fiskeldis á Stað við Grindavík.

Allt frá hrognum til neytanda

Fiskeldi Samherja kemur að öllum stigum eldis og vinnslu, allt frá hrognum til neytenda.  Samherji fiskeldi ehf. rekur eina klakfiskastöð að Sigtúnum í Öxarfirði, eina klakstöð fyrir hrogn að Núpum í Ölfusi, þrjár seiðastöðvar og tvær áframeldisstöðvar fyrir bleikju, aðra á Stað við Grindavík og hina að Vatnsleysuströnd.  Einnig rekur fyrirtækið eina strandeldistöð fyrir lax að Núpsmýri í Öxarfirði.  Allt eru þetta landeldisstöðvar sem nýta jarðvarma og notast við borholuvatn, ýmist ferskt eða ísalt, við framleiðslu á hágæða eldisfiski.

Til að vinna afurðir frá eldinu eru starfræktar tvær vinnslur, önnur í Öxarfirði þar sem laxi er slátrað og pakkað og síðan fullkomin hátæknivinnsla í Sandgerði þar sem bleikju er slátrað og hún unnin í fjölbreyttar neytandaumbúðir.  Allar stöðvarnar eru vottaðar af ECOCERT í Sviss fyrir verslunarkeðjuna Whole Foods Market í Bandaríkjunum og vinnslan er jafnframt með  BAP vottun (Best Aquaculture Practices). Stefnt er á að bleikjueldið verði vottað af ASC á árinu 2020.

Heimskautafiskur

Bleikja er heimskautafiskur, sem heldur sig bæði í ám og vötnum og sjó. Hún er auðþekkt frá öðrum laxfiskum enda er hún eina tegundin af ættkvíslinni Salvelinus, sem finnst hér. Hún er hauslítil með frammjótt trýni, jafnskolta og með smáan kjaft, Uggar eru svipaðir að stærð og lögun og á urriða, en sporður er meira sýldur.

Heimskynni bleikjunnar  eru á Íslandi, Svalbarða, Novaja Semlja, Lapplandi og Finnmörku, á Grænlandi, Kanada og Alaska.

Sjóbleikja  lifir bæði í ferskvatni og söltu og heldur sig mest innfjarða þar sem mikið er um marfló sem er ein aðalfæða hennar, auk þess sem hún étur smáfiska, skarkolaseiði, ögn, krabbaflær, burstaorma og fleira góðgæti.

Sjóbleikjan gengur upp í ár í ágúst og fram í september og hrygnir síðan á tímabilinu frá september fram í  desember.  Hún fær þá riðabúning og hængurinn gjarnan krók á neðri skolt. Klak á sér stað á tímabilinu frá mars og fram í maí til júní. Kviðpokaseiðin eru í mölinni í maí til júní. Síðan halda seiðin sig flest í ferskvatni næstu  2-5 árin. Gönguseiðin  halda til sjávar í apríl og maí og eru í sjónum næstu tvo mánuðina en ganga aftur í ferskvatn fyrir veturinn.  Ókynþroska bleikja  gengur því jafnt og kynþroska í ferskvatn á haustin og er sú hegðun því ekki bundin kynþroska eins og hjá laxi og sjóurriða. Heimild; Íslenskir fiskar

Texti og myndir Hjörtur Gíslason.

Þessi umfjöllun birtist einnig í blaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur út. Blaðinu er dreift á öll fyrirtæki í landinu. Blaðið má nálgast á slóðinni ritform.is

 

 

 

Deila: