„Þörf samkeppni og viðbót við markaðinn“

198
Deila:

Inn- og útflutningur með skipum Smyril Line um Þorlákshöfn hefur farið stöðugt vaxandi, síðan ferðir þaðan til Evrópu hófst. Nú stunda tvö skip þessa flutninga, Akranes og Mykines og er útflutningurinn að megninu til fiskur, en innflutningurinn er margvíslegur. Auk þessa flytur Smyril Line fisk og annan varning með farþegaferjunni Norrönu, sem siglir til og frá Seyðisfirði vikulega allt árið um kring.  Helsti kosturinn við að nota Þorlákshöfn sem innflutningshöfn er sá að siglingatíminn er styttri en inn til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar. Það er Linda Gunnlaugsdóttir sem þarna ræður ferðinni. Hún er reynslubolti úr flutningabransanum með um 30 ár að baki, bæði á Íslandi og í Færeyjum.

„Þetta byrjaði með því að Smyril Line sem orðið er 38 ára gamalt var að sigla með farþega- og bílaferjuna Norrönu milli Íslands, Færeyja og Danmerkur yfir sumartímann og ákveðið var að hefja siglingar allt árið, til að auka þjónustu, einkum við útflytjendur á ferskum og frystum fiski. Fragtflutningum hafði reyndar verið útvistað en 2015 ákváðum við að taka þessa flutninga aftur inn. Þá var stofnuð flutningadeild bæði í Færeyjum og Íslandi og við byrjuðum að setja okkur markmið um meiri og betri þjónustu við flutningamarkaðinn á Íslandi og í Færeyjum,“ segir Linda.

Kallað eftir hraðari flutningum

„Við byrjuðum á að kaupa tvö skip sem heita Hvítanes og Eystnes. Það eru frystipallaskip, sem geta líka tekið vöruvagna og gáma. Þau voru keypt 2015 og voru mest notuð fyrir flutning á fiski til Sankti Pétursborgar í Rússlandi og laxi frá Færeyjum niður til Evrópu. Næstu skref beindust að því hvernig við gætum betur þjónað Íslandi. Ég hef verið í þessum flutningabransa í fjölmörg ár, bæði í Færeyjum og hér heima og sömu sögu er að segja af félögum mínum. Það var alveg ljóst að útflytjendur hafa verið að kalla eftir hraðari flutningstíma og öðrum möguleikum. Við fórum þá að skoða í kringum okkur og strax var ljóst að til að hafa flutningstímann sem stystan, gengi ekki að sigla fyrir Reykjanesið. Þess vegna hófum við viðræður við bæjaryfirvöld í Ölfusi. Aðstaðan þar fyrst í stað var ekkert endilega góð fyrir svona stór skip eins og við vorum með í huga. Með góðu samstarfi tókst svo að búa svo í haginn í höfninni þar að aðstæður væru orðnar góðar fyrir jafnstórt skip og Mykines. Nú er aðstaðan mun betri en þó þarf töluverðar breytingar til viðbótar á höfninni og innsiglingunni til að halda áfram uppbyggingunni þar.“

Mykines og Akranes

Þá var farið af stað og skipið keypt og þjónustan auglýst. Þetta eru svokölluð RO-RO skip, sem flytur vöru að langmestu leyti á flutningavögnum, þó hægt sé að taka gáma líka. Þetta tókst strax mjög vel. Mykinesið siglir frá Þorlákshöfn að kvöldi föstudags, með mikið af fiski, ferskum, frystum og söltuðum og er verið að afhenda vörurnar alls staðar í Evrópu aðfaranótt þriðjudags. Það er mikil stytting á flutningstíma frá Íslandi. Með sama móti tekur innflutningurinn stuttan tíma. Í þessum skipum er allt flutt innan dyra, þannig að meðhöndlun vörunnar er mjög góð.

„Við fórum svo strax að skoða hver næstu skrefin ættu að vera og þá kom að því að kaupa flutningaskipið Akranes, sem er að sinna báðum mörkuðunum, Færeyjum og Íslandi í inn- og útflutningi. Við förum á föstudagskvöldi frá Danmörku og erum að koma upp úr hádegi á mánudögum til Íslands. Styttri flutningstíma getur þú ekki fengið í skipaflutningum til landsins frá Skandinavíu. Með þessari flutningaleið er einnig kominn upp nýr möguleiki fyrir útflytjendur. Þeir geta sent fisk úr fyrri hluta vikunnar og afhenda hann ytra í lok viku. Þarna erum við komin með nýjan tíma fyrir útflytjendur og þessir flutningar byrja mjög vel og útflytjendur eru að átta sig á að þarna er um spennandi leið að ræða.

Með Mykines erum við að sigla á Rotterdam og komum við í Færeyjum á leiðinni til Íslands, en förum beint út til Rotterdam frá Íslandi. Akranes siglir svo á milli Hirtshals í Danmörku, Færeyja og Þorlákshafnar. Svo siglir Norröna í hverri viku milli Hirtshals, Færeyja og Seyðisfjarðar, en það er mjög öflug flutningaleið sem og farþegaleið. Mikill útflutningur er að koma frá Norður- og Austurlandi með skipinu. Þannig að við getum boðið mjög hagstæðan flutningstíma og öryggi í afhendingu í öllum höfnunum fyrir alla landshluta,“ segir Linda.

Á þessari mynd er Mykines við Þorlákshöfn og á efstu myndinni er Akranes. Skipin eru svokölluð RO-RO skip, þar sem vörurnar eru fluttar með stórum vöruvögnum.

Öll þjónusta við inn- og útflutning

Linda segir að mestur hluti innflutningsins fari í gegn um höfuðborgarsvæðið og því þurfi Smyril Line að vera þar með aðstöðu og sinna því. Innflutningurinn er mjög blandaður, það eru bílar, vélar, tæki og byggingarefni, neytendavara og í raun hvað sem er. „Við erum með vörugeymslu í Hafnarfirði, á Seyðisfirði og síðan erum við með okkar eigið vöruhús í Þorlákshöfn. Þar erum við að umskipa fiski en þurrvöruna tökum við til Hafnafjarðar. Við bjóðum upp á alla þjónustu við inn- og útflutning, við getum sótt vörur út um allan heim og komið þeim inn á okkar flutningsleið og dreift þeim hér á Íslandi. Í útflutningnum erum við að sækja fisk út um allt land og komum honum á áfangastaði úti um alla Evrópu. Við bjóðum líka upp á gámaflutninga til Austurlanda fjær og Suður-Ameríku fyrir frystan og saltaðan fisk. Við erum líka að bjóða upp á skemmtilega leið sem við köllum sjó og flug. Þá erum við að taka ferskan fisk til Rotterdam og keyrum hann síðan á flugvöllinn í Amsterdam og komum honum í flug til Ameríku eða Kína eða í raun hvert sem er.“

En hvernig er að koma inn í samkeppni við gömlu risana Eimskip og Samskip?

„Okkar sérstaða liggur í að við erum að bjóða uppá annars konar flutningskerfi en önnur skipafélög sem þjónusta Ísland þ.e.a.s við erum að flytja allar vörur í flutningavögnum í RO/RO skipum þar sem allt er keyrt út og inn. Við erum að bjóða upp á hraðari siglingar, hraðari losun/lestun og mjög sveigjanlega þjónustu. Markaðurinn tekur okkur vel og það er það sem skiptir öllu máli. Við getum einfaldlega sagt að koma okkar inn á markaðinn hafi verið þörf og góð viðbót fyrir markaðinn, bæði í út- og innflutningi „ segir Linda.

Með 30 ára reynslu í flutningum

„Ég er sjálf  búin að vera í þessu í 30 ár og því má segja að ég sé reynslubolti í flutningum. Ég var lengi að vinna hjá Eimskip og Samskip þar á undan. Var meðal annars framkvæmdastjóri Eimskips í Færeyjum í nokkur ár. Ég flutti heim aftur 2003 og tók þá við útflutningsdeild Eimskip þangað til ég ákvað að söðla um og skipta um bransa árið 2005. Árið 2008 var ég hætt í flutningabransanum á Íslandi en var þá beðin um að koma í stjórn Smyril Line í Færeyjum. Þá var fyrirtækið í miklum rekstrarörðugleikum og komið í fangið á færeyska ríkinu. Það náðist að snúa rekstrinum til betri vegar og nú er ríkið farið úr rekstrinum og núverandi eigendur er flottur hópur Færeyinga. Verkefnið hjá Smyril Line hefur verið sérstaklega spennandi og hópurinn sem stendur að fyrirtækinu er með mikla reynslu.  Markmiðið var að kynna RO-RO lausnina á Íslandi og það hefur tekist vel enda fyrirtækið með einvala lið starfsmanna sem samanstendur af reynslu, metnaði og mikilli þjónustulund.“

Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri, sem ritform gefur út. Blaðinu er dreift til fyrirtækja um allt land. Það má líka nálgast á slóðinni https://ritform.is/wp-content/uploads/2020/02/soknarfaeri_SJOR_1_tbl_feb_2020_lagad_2.pdf

 

 

Deila: