Frystitogararnir flestir á Hampiðjutorginu

110
Deila:

,,Við erum núna staddir á Hampiðjutorginu ásamt meirihluta íslenska frystitogaraflotans. Hér er búin að vera ágætis veiði og alls erum við með um 630 tonn upp úr sjó í veiðiferðinni sem lýkur í næstu viku.”

Þetta sagði Árni Gunnólfsson, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE, er heimasíða Brims náði tali af honum laust eftir hádegisbilið í gær. Vigri var þá að grálúðuveiðum á Hampiðjutorginu og sagði Árni veiðina vera þokkalegt kropp.

,,Það er nudd í grálúðuveiðinni og svo fáum við djúpkarfa og gullkarfa. Við höfum aðallega verið á höttunum eftir grálúðu og djúpkarfa og erum búnir að reyna fyrir okkur á djúpkarfaslóðinni í Skerjadjúpinu. Hér á Vestfjarðamiðum höfum við lengst farið norður í hinn svokallaða Kartöflugarð og þar var ágæt grálúðuveiði alveg við hafísröndina. Svo urðum við að flýja undan ísnum og hrökkluðumst undan honum hingað suður eftir,” segir Árni en hann getur þess að mikil veðurblíða hafi verið á miðunum síðustu daga. Nokkuð sem áhafnir skipanna áttu ekki að venjast í vetur.

 

 

Deila: