Hægagangur hjá togurunum

Rétt eins og að undanförnu er hægagangur á útgerð ísfisktogaranna Gullvers NS, Vestmannaeyjar VE og Bergeyjar VE vegna kórónuveirufaraldursins. Gullver landaði 105 tonnum af blönduðum afla á Seyðisfirði sl. mánudag og hélt ekki til veiða á ný fyrr en á miðvikudagskvöld.
Bæði Bergey VE og Vestmannaey VE lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum sl. mánudag. Bergey hélt strax til veiða á ný og landaði rúmlega 50 tonnum sl. miðvikudag en Vestmannaey hélt kyrru fyrir í landi. Gert er ráð fyrir að bæði skipin haldi síðan til veiða um helgina.
Arnar Richardsson rekstrarstjóri Bergs-Hugins, sem, gerir út Vestmannaey og Bergey, segist í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar vonast til þess að nú fari að lifna yfir fisksölu erlendis og þá verði hægt að sækja meira og nýta skipin með eðlilegum hætti.
Ljósm. Egill Guðni Guðnason